„Ég myndi telja að um 2030 verði flugvöllurinn farinn, eða svo gott sem farinn. Ég er sannfærður um það.“ Þetta segir Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður skipulags- og umhverfisráðs borgarinnar í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hjálmar var á meðal þeirra fulltrúa Reykjavíkurborgar sem sótti ráðstefnuna Framtíð borganna sem haldin er í Osló. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sótti hana einnig.
Hjálmar segir að uppbyggingin á fyrrverandi helgunarsvæðum nærri Reykjavíkurflugvelli, til að mynda á Hlíðarenda, sé hluti af umbreytingu Vatnsmýrarinnar og vísir að breyttri notkun svæðisins í framtíðinni. „Helgunarsvæði flugvallarins er smátt og smátt að minnka og ég tel engan vafa á því, sérstaklega eftir að hafa séð hvernig menn hér í Osló hafa endurnýtt gömul og úr sér gengin iðnaðarsvæði, eða svæði fyrir atvinnustarfsemi sem taka gríðarlegt pláss en skapa kannski ekki mörg störf, að flugvöllurinn mun fara úr Vatnsmýri.“ Hann vonist til þess að lagður verði borgarflugvöllur í Hvassahrauni.
Dagur segir við Morgunblaðið að Hvassahraun sé ekki eini raunhæfi kosturinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll en að athuganir hingað til bendi til þess að það sé besti kosturinn. Á ráðstefnunni í Osló ræddi Dagur meðal annars hátt hlutfall ferða með bílaleigubílum frá Keflavíkurflugvelli, en 55 prósent allra ferða þaðan eru með slíkum. Hann sagði að verið væri að skoða möguleika á fluglest til að efla almenningssamgöngur á leiðinni og draga um leið úr losun gróðurhúsalofttegunda.