„Við komum inn í stjórnmálin árið 2012 og við komum inn í umhverfi þar sem það þykir bara eðlilegt að það hvíli leynd á akstursgreiðslum til þingmanna. Það þykir bara eðlilegt að þingmenn gangi bara í opinbera sjóði eins og nammikistu. Og það er ekki hægt að nálgast upplýsingar um það. Það þykir ekki eðlilegt að taka ábyrgð á stórum pólitískum mistökum og lögbrotum ráðherra.“
Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, um stöðuna í íslenskum stjórnmálum þegar Píratar voru stofnaðir fyrir um sjö árum síðan. Hún var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Siðanefnd Alþingis komst nýverið að þeirri niðurstöðu að ummæli Þórhildar Sunnu um Ásmund Friðriksson hafi brotið gegn siðareglum Alþingismanna. Ummælin, sem hún lét falla í Silfrinu, voru eftirfarandi: „Við sjáum það að ráðherrar þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum, þingmenn þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum. Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að segja á fót rannsókn á þessum efnum.“
Hún hafi verið að benda á ákveðið vandamál sem sé til staðar í íslensku samfélagi sem sé að ráðherrar og þingmenn þurfi aldrei að bera neina ábyrgð.