Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Alþingis, segir að nýlegir kjarasamningar, lífskjarasamningarnir svokölluðu, hafi skapað aðstæður sem gerðu Seðlabanka Íslands mögulegt að bregðast við með 0,5 prósentustiga vaxtalækkun.
Í kólnandi hagkerfi hafi nú skapast aðstæður fyrir stjórnvöld, aðila vinnumarkaðarins og Seðlabanka Íslands, til að vinna saman að viðspyrnu í efnahagslífinu, sem sé eins og skrifuð upp úr kennslubók í hagfræði.
Þetta kemur fram í ítarlegri grein Gylfa sem birtist í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda á föstudaginn.
Eins og kunnugt er, lækkaði Seðlabanki Íslands meginvexti sína niður í 4 prósent á miðvikudag, en verðbólga mælist nú 3,3 prósent.
Gylfi segir að núverandi aðstæður eigi að geta undirbyggt traust á milli þeirra sem kom að hagstjórninni.
„Samvinna aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda hefur skapað svigrúm til þess að lækka vexti nú þegar samdráttur verður í framleiðslu og atvinnu. Vonandi eru að verða tímamót í samskiptum þessara aðila. Verkalýðshreyfingin mun þá leggja sitt af mörkum til þess að kjör almenning verði betri með því að lægri vextir og lág verðbólga fari saman. Í hagfræði er mikið fjallað um að atvinnuleysi þurfi að vera hæfilegt til þess að sátt náist á vinnumarkaði. Ef það sé of lágt þá verði ófriður á vinnumarkaði, launaskrið og verðbólga. Með samvinnu aðila verður vonandi hægt að lækka þetta stig atvinnuleysis, sem kallast náttúrulegt atvinnuleysi í fræðunum, og ná verðbólgumarkmiði með lægri vöxtum en ella.
Samvinnan mun vonandi efla traust á milli verkalýðsfélaga, samtaka atvinnurekenda og Seðlabankans. Traust felur ekki í sér að allir fái sínu framgengt heldur fremur að orðum sé trúað og þegar aðilar fá ekki það sem þeir vilja þá sé ekki gert ráð fyrir að það sé vegna vanhæfni eða illvilja annarra.
Peningastefnan á að tryggja stöðugt verðlag sem er skilgreint á þann hátt að verðbólga sé 2.5% á ári. Þeir sem bera ábyrgð á henni verða að gera sem þarf til þess að ná þessu markmiði þótt það kosti fórnir til skamms tíma. En þær fórnir verða minni ef traust er fyrir hendi og aðilar vinnumarkaðar, stjórnvöld og Seðlabanki vinna sama og taka tillit til áhrifa gerða sinna á verðlag, atvinnu og hagvöxt.“
Hægt er að gerast áskrifandi Vísbendingu hér.