Marinó Örn Tryggvason, sem verið hefur aðstoðarforstjóri Kviku banka frá árinu 2017, hefur tekið við sem forstjóri bankans. Ármann Þorvaldsson, sem verið hefur forstjóri Kviku banka frá því í maí 2017, hefur ákveðið að hætta í starfinu.
Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar Íslands en Kvika banki er annar af tveimur bönkum landsins sem skráðir eru á markað. Þar segir að Ármann muni áfram starfa hjá Kviku banka en í breyttu hlutverki að eigin ósk. Héðan í frá muni starf hans einskorðast við uppbyggingu viðskiptatengsla, þróun viðskiptatækifæra og að styðja við áframhaldandi uppbyggingu á starfsemi bankans í Bretlandi.
Ármann segir að forstjórastarfið feli í sér umtalsverðar stjórnunarlegar skyldur sem hann hafi ekki áhuga á að sinna til langframa. „Hins vegar hef ég mikinn áhuga á að starfa áfram með því frábæra fólki sem vinnur hjá Kviku og vil einbeita mér að verkefnum sem snúa að því að styrkja tengsl við viðskiptavini og þróa viðskiptatækifæri. Uppbyggingin á starfsemi bankans í Bretlandi hefur gengið mjög vel á undanförnum árum og ljóst að þar eru sóknartækifæri til framtíðar fyrir Kviku. Með þessari breytingu tel ég að hægt sé að nýta betur reynslu mína, þekkingu og tengsl í Bretlandi til þess að styðja við áframhaldandi vöxt þar.“
Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Kviku, segir að Ármann hafi fyrir stuttu óskað eftir því að breyta starfsskyldum sínum hjá Kviku og það hafi leitt til þess að hann og Marinó skiptu um hlutverk. „Þeir hafa unnið vel saman og byggt upp, ásamt öðrum stjórnendum og starfsmönnum, öflugan banka. Ármann mun sinna daglegum rekstri í minna mæli en Marinó hefur gert en þess í stað einbeita sér að öflun viðskiptatækifæra. Ég vænti þess að breytingarnar leiði til enn aukinnar áherslu á tekjuöflun, auk þess sem reynsla og þekking Marinós mun nýtast vel í áframhaldandi uppbyggingu bankans.“
Uppgjör umfram væntingar
Kvika birti í dag afkomutilkynningu sína fyrir fyrsta ársfjórðung þar sem fram kemur að bankinn hagnaðist um 709 milljónir króna og hagnaður fyrir skatta var 852 milljónir króna. Hreinar rekstrartekjur námu 2.289 milljörðum króna.
Sú niðurstaða var umfram væntingar. Arðsemi eiginfjár Kviku banka var 22,4 prósent sem er mun meiri arðsemi en stóru bankarnir þrír eru að ná á sínu eigin fé.
Heildareignir Kviku eru 115,1 milljarðar króna. Eigið fé Kviku banka var 13,2 milljarðar króna í lok mars síðastliðins og eiginfjárhlutfallið 22,5 prósent.
Alls eru 442 milljarðar króna í stýringu hjá Kviku banka og dótturfélögum hans og 133 starfsmenn starfa í fullu starfi hjá samstæðunni.