Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist vonast til þess að raforkusæstrengur verði ekki lagður hingað til lands.
Þetta kom fram í umræðum á Alþingi um þriðja orkupakkann svonefnda.
Katrín gerði þá að umtalsefni í ræðu, að þriðji orkupakkinn svonefndi fæli ekki í sér neina skuldbindingu um að sæstrengur yrði lagður til Íslands, t.d. frá Bretlandi.
„Það er staðreynd málsins, hún hefur ekki verið hrakin, hann (þriðji orkupakkinn) felur ekki í sér kvöð um það að hingað skuli lagður sæstrengur það er ákvörðun Alþingis ef til þess nokkru sinni kemur sem ég vona ekki,“ segði Katrín meðal annars.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gerði þá að umtalsefni grein sem birtist í Sunday Times um að 25 fjárfestar hefðu fullfjármagnað lagningu sæstrengs til Íslands, með það að markmiði að selja um hann rafmagn inn á Bretlandsmarkað.
Eins og málum er háttað nú, þá framleiðir Landsvirkjun, sem er 100 prósent í eigu ríkisins, langsamlega mest af raforku, af öllum orkuflutningum í landinu.
Kaupendur raforkunnar eru að mestu leyti erlend stórfyrirtæki á sviði áliðnaðar, Rio Tinto, Century Aluminum og Alcoa. Auk þess eru Elkem stór kaupandi.
Heildartekjur fyrirtækisins námu 534 milljónum Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um 66,2 milljörðum króna. Heildareignir Landsvirkjunar námu í árslok í fyrra 4,4 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 550 milljörðum króna, en eigið féð nam tæplega 2,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 280 milljörðum króna.
Í umræðum um þriðji orkupakkann, sagði Katrín að þriðji orkupakkinn fæli ekki í sér framsal á fullveldi yfir orkumálum. Engin ástæða væri til að tala þannig um málin, líkt og Miðflokksmenn hafa nú gert á Alþingi dögum saman, sín á milli.