Gerðardómur hefur komist að niðurstöðu um nýtt verð á rafmagni milli Landsvirkjunar og Elkem, sem rekur verksmiðju á Grundartanga. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að nýtt verð verði ekki gefið upp en að í niðurstöðunni felist „umtalstverð hækkun“ frá því verði sem Elkem greiddi áður.
Samningur Elkem er upphaflega frá árinu 1975 en verksmiðjan á Grundartanga hóf starfsemi árið 1979. Honum hefur alls verið breytt sex sinnum en samningurinn var upphaflega til 40 ára, og átti því að renna út í ár. Í samningnum var hins vegar ákvæði sem heimilaði Elkem að framlengja gildistímann um áratug, eða til ársins 2029. Það ákvæði nýtti fyrirtækið sér og samhliða var ákvörðun um það rafmagnsverð sem þá greiðir til Landsvirkjunar vísað til gerðardóms. Elkem er fjórði stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og nemur rafmagnsmagn samningsins 127 MW og 1.035 GWst. Því er um stórar upphæðir að ræða.
Búið að semja við níu af tíu stærstu
Niðurstaða gerðardómsins liggur nú fyrir en samkomulag er milli Landsvirkjunar og Elkem um að gefa ekki upp hvert nýja verðið sé. Hörður segir þó í samtali við Kjarnann að niðurstaðan sé jákvæð fyrir Landsvirkjun. „„Þetta er gott skref að það sé verið að ljúka þessari framlengingu við Elkem. Verðið verður ekki gefið upp en við getum sagt að það er umtalsverð hækkun.“
Nú hefur Landsvirkjun endursamið um verð við níu af tíu stærstu viðskiptavinum sínum frá því að upphaflegir samningar voru gerðir og hækkað rafmagnsverð til stórnotenda umtalsvert. Ósamið er hins vegar við Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði en upphaflegur samningur Landsvirkjunar við það fyrirtæki er frá árinu 2003. Það er sömuleiðis langstærsti orkusölusamningur Landsvirkjunar en Alcoa Fjarðarál kaupir alls um þriðjung af allri raforkuframleiðslu fyrirtækisins. Álverið á Reyðarfirði tók til starfa um mitt ár 2007 og náði fullum afköstum nokkru síðar. Raforkusamningurinn var undirritaður 2003, en gildistímabil hans er 40 ár frá umsömdum föstum afhendingardegi orkunnar. Hann rennur því út um 2048.