Arion banki sagði upp níu starfsmönnum í gær, og voru flest störfin í höfuðstöðvum bankans. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, yfirmaður samskiptamála hjá bankanum. „Almennt hefur bankinn verið á þeirri vegferð að auka skilvirkni í rekstrinum. Starfsfólki bankans hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum og höfum við reynt að nýta starfsmannaveltu eins og hægt er en það dugar ekki alltaf til. Ef horft er til allrar starfsmannaveltu og annars ársfjórðungs þá má ætla að fækkun starfsfólks nemi u.þ.b. 20,“ segir Haraldur Guðni.
Bankinn hefur gengið í gegnum nokkurn mótbyr að undanförnu, meðal annars vegna milljarða útlánataps í tengslum við fall WOW air, Primera og United Silicon.
Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrstu þremur mánuðum þessa árs nam einum milljarði króna. Á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 1,9 milljarðar.
Arðsemi eiginfjár var 2,1 prósent, í samanburði við 3,6 prósent á sama tíma í fyrra, en svo lítil arðsemi telst lág fyrir bankarekstur, í alþjóðlegum samanburði.
Slæm afkoma dótturfélags bankans, Valitor, hefur neikvæð áhrif á rekstur bankans, en bókfært virði félagsins hefur lækkað um 1,6 milljarð frá áramótum, af því er fram kemur í uppgjörinu. Það var 15,7 milljarðar í árslok í fyrra en var í lok mars 14,1 milljarður.
Stefán Pétursson, starfandi bankastjóri bankans, lét hafa eftir sér í fréttatilkynningu vegna afkomu á fyrsta ársfjórðungi, að fjárhagsstaða bankans væri sterk og mikilvæg skref hafi verið stigin í hagstæðari fjármagnsskipan, meðal annars með lækkun á hlutafé.
Heildareignir námu 1.223 milljörðum króna í lok mars 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 og eigið fé nam 193 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.
Nokkuð hefur verið um hagræðingaraðgerðir á fjármálamarkaði að undanförnu, en fyrir viku síðan sagði Íslandsbanki upp 16 starfsmönnum, bæði úr höfuðstöðvum og útibúaneti.