„Samkvæmt framansögðu er það afstaða forsætisráðuneytisins að framkomnar athugasemdir og þau efnisatriði sem þar koma fram leiði ekki til vanhæfis nefndarmanna í hæfnisnefnd sem skipuð hefur verið til að meta hæfni umsækjenda um embætti seðlabankastjóra, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Er það jafnframt afstaða ráðuneytisins að ekki hafi komið fram aðrar ástæður sem geti leitt til annarrar niðurstöðu.“
Þetta segir í bréfi forsætisráðuneytisins til umsækjenda um embætti seðlabankastjóra, en tveir umsækjendur, Sturla Pálsson og Vilhjálmur Bjarnason, kvörtuðu yfir skipan í hæfisnefnd, sem metur hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra.
Kjarninn óskaði eftir því að fá afrit af bréfinu á grundvelli upplýsingalaga, og var orðið við því.
Sigríður Benediktsdóttir er formaður nefndarinnar. Ásamt henni eru tveir aðrir í hæfisnefndinni. Um er að ræða þau Eyjólf Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og Þórunni Guðmundsdóttur, hæstarlögmann og varaformann bankaráðs. Eyjólfur er tilnefndur til nefndarsetunnar af samstarfsnefnd háskólastigsins, en Þórunn af bankaráði Seðlabankans en Sigríður er skipuð án tilnefningar.
Í bréfi forsætisráðuneytisins segir meðal annars að annar umsækjendanna sem kvartaði yfir skipan í hæfisnefndina, hafi meðal annars gert það vegna þess að hann hefði deilt harkalega á faglegum nótum við Sigríði, í nokkur skipti, þegar hún var starfandi í Seðlabanka Íslands. Eru þessar athugasemdir ekki taldar með neinu móti geta leitt til vanhæfis, að því er fram kemur í bréfinu.
Í bréfinu eru farið yfir þær athugasemdir sem bárust í umkvörtunum, og afstaða tekin til þeirra. Undir bréfið rita Ágúst Geir Ágústsson og Ásgerður Snævarr.
Svarbréf þeirra til umsækjenda fer hér að neðan.
„Þann 7. maí sl. skipaði forsætisráðherra, í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands nr.
36/2001, með síðari breytingum, hæfnisnefnd til að leggja mat á hæfni umsækjenda um embætti
seðlabankastjóra. Í kjölfar þeirrar skipunar sendi forsætisráðuneytið umsækjendum um embættið erindi, dags. 13. maí 2019, þar sem þeim var gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við hæfi nefndarmanna og var frestur gefinn til loka dags föstudaginn 17. maí sl. Athugasemdir og ábendingar um atriði sem kynnu að hafa áhrif á hæfi nefndarmanna bárust frá tveimur umsækjendum.
Þau efnislegu atriði sem gerð er athugasemd við eru þrenns konar. Í fyrsta lagi varða þau setu formanns nefndarinnar, Sigríðar Benediktsdóttur, í bankaráði Landsbanka Íslands, annars vegar vegna hagsmuna bankans sem eigi veruleg viðskipti við Seðlabankann og sé eftirlitsskyldur aðili á fjármálamarkaði og hins vegar vegna setu eins umsækjanda í stjórn Bankasýslu ríkisins sem tilnefndi hana til setu í stjórn Landsbankans. Í öðru lagi varða þau faglegan ágreining hennar við einn umsækjanda í fyrri störfum sem framkvæmdastjóri á fjármálastöðuleikasviði Seðlabanka Íslands á árunum 2011-2016.
Í þriðja lagi er gerð athugasemd við sérstakt hæfi nefndarmannanna, Eyjólfs Guðmundssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur, vegna setu þeirra í hæfnisnefnd sem skipuð var til að leggja mat á hæfni umsækjenda í embætti aðstoðarseðlabankastjóra vorið 2018.
Auk þeirrar athugasemdar var jafnframt nefndur faglegur ágreiningur eins umsækjanda og Þórunnar Guðmundsdóttur í störfum hennar sem lögmaður. Bent skal á að viðkomandi umsækjandi tók sérstaklega fram að hann teldi þessar ábendingar ekki leiða til vanhæfis Þórunnar. Ofangreindar athugasemdir umsækjenda voru framsendar hæfnisnefnd þann 20. maí sl. þar sem óskað var eftir afstöðu nefndarinnar til þeirra.
Hæfnisnefndin lét í ljós afstöðu sína til framangreindra athugasemda með tölvubréfi til ráðuneytisins þann 22. maí 2019 og er það afstaða nefndarinnar að umrædd efnisatriði leiði ekki til vanhæfis þeirra.
Afstaða forsætisráðuneytisins til framkominna athugasemda
Seta nefndarformanns í bankaráði Landsbankans Landsbankinn er að 98,2% í eigu ríkissjóðs Íslands, Landsbankinn á sjálfur 1,5% og um 900 aðrir hluthafar eiga saman 0,3% hlutafjár. Þrátt fyrir að Sigríður sé með setu sinni í bankaráði
Landsbankans í fyrirsvari fyrir bankann verður að telja hagsmuni hans, sem eftirlitsskylds aðila, vera svo fjarlæga að þeir geti ekki talist sérstakir eða verulegir í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr.
stjórnsýslulaga. Á það einnig við, að mati ráðuneytisins, verði af sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Í athugasemdum eins umsækjanda um embætti seðlabankastjóra er vísað til 26. gr. laga um
Seðlabanka Íslands um að eigi megi kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra
fjármálastofnana sem eigi viðskipti við bankann til setu í bankaráði. Fjallað er um hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra í 2. mgr. 23. gr. laganna. Í ákvæðinu kemur fram hvernig nefndin skuli skipuð en ekki er þar að finna aðrar sérreglur um nefndina. Verða því ekki dregnar aðrar ályktanir en að II. kafli stjórnsýslulaga gildi um sérstakt hæfi nefndarmanna. Þá kemur fram í athugasemdum við 26. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um Seðlabanka Íslands að ástæða þess að ekki megi kjósa stjórnendur lánastofnana sem viðskipti eigi við bankann til setu í bankaráði sé að telji verði óeðlilegt vegna hættu á hagsmunaárekstrum og aðgangs að trúnaðarupplýsingum um samkeppnisaðila að stjórnendur og starfsmenn lánastofnana sitji í bankaráði Seðlabankans. Ljóst er að sömu sjónarmið eiga ekki við um nefndarmenn í hæfnisnefnd þeirri sem hér um ræðir.
Faglegur ágreiningur
Við mat á sérstöku hæfi Sigríðar Benediktsdóttur hefur ráðuneytið jafnframt lagt mat á athugasemdir er lúta að faglegum ágreiningi hennar við einn umsækjanda á meðan hún og umræddur umsækjandi voru bæði við störf í Seðlabanka Íslands. Kemur fram í athugasemdum um þetta atriði að á meðan á samstarfi þeirra stóð hafi í nokkur skipti komið upp harður faglegur ágreiningur milli þeirra. Tekið er fram í umræddum athugasemdum að þrátt fyrir að hart hafi verið tekist á hafi ágreiningurinn fyrst og fremst verið faglegur. Almennt séð veldur það ekki vanhæfi eitt og sér þótt menn hafi starfað saman eða áður fjallað hvor um annars verk eða hæfni. Yfirleitt veldur það heldur ekki vanhæfi manna þó þeir hafi ólíkar skoðanir á fræðilegum efnum eða hafi greint á í afstöðu til manna eða málefna.
Verður slíkur ágreiningur einungis talinn leiða til vanhæfi til meðferðar einstaks máls að talið verði að fyrir liggi að vegna illvígra deilna eða af öðrum ástæðum hafi maður orðið svo ber að óvild í garð annars manns, að ekki verði talið að sá fyrmefndi geti á hlutlausan hátt fjallað um mál sem sá síðarnefndi á hlut að. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er fjallað um ágreining milli aðila máls og nefndarmanns. Þar er sérstaklega tiltekið að fyrir hendi þurfi sannanlega að vera hlutlægar ástæður sem almennt verði taldar þess eðlis að draga megi óhlutdrægni nefndarmanns í efa.
Er það mat forsætisráðuneytisins að framkomin athugasemd gefi ekki tilefni til að ætla að umræddur ágreiningur hafi verið þess eðlis að hann geti valdið vanhæfi nefndarformannsins, sbr. 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga.
Seta tveggja nefndarmanna í hæfnisnefnd vorið 2018
Hvað varðar athugasemdir við hæfi annarra nefndarmanna vegna setu þeirra í hæfnisnefnd sem skipuð var til að leggja mat á hæfni umsækjenda í embætti aðstoðarseðlabankastjóra vorið 2018 vísast til umfjöllunar að framan varðandi mögulegar vanhæfisástæður skv. 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga.
Líkt og þar kemur fram veldur það yfirleitt ekki vanhæfi manna þó þeir hafi áður starfað saman, fjallað um hvors annars verk eða hæfni. Er það mat ráðuneytisins að seta Eyjólfs og Þórunnar í hæfnisnefndinni 2018 feli ekki í sér hlutlæga ástæðu sem geti almennt verið til þess fallin að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa í skilningi ákvæðisins.
Samkvæmt framansögðu er það afstaða forsætisráðuneytisins að framkomnar athugasemdir og þau efnisatriði sem þar koma fram leiði ekki til vanhæfis nefndarmanna í hæfnisnefnd sem skipuð hefur verið til að meta hæfni umsækjenda um embætti seðlabankastjóra, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Er það jafnframt afstaða ráðuneytisins að ekki hafi komið fram aðrar ástæður sem geti leitt til annarrar niðurstöðu.
Þetta tilkynnist hér með."
Sextán umsækjendur
Sextán sóttu um stöðu seðlabankastjóra. Þau eru:
Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra
Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands
Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra
Gunnar Haraldsson, hagfræðingur
Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur
Gylfi Magnússon, dósent
Hannes Jóhannsson, hagfræðingur
Jón Daníelsson, prófessor
Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins
Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR.
Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri
Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands
Vilhjálmur Bjarnason, lektor
Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra