Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og borgarstjóri í Lundúnum, þarf að koma fyrir rétt vegna ásakana um villandi upplýsingar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit árið 2016 hélt Johnson því fram í herferð sinni að Bretar greiddu Evrópusambandinu 350 milljónir punda á viku. Frá þessu greint á vef breska miðilsins The Independent.
Marcus Ball, athafnamaður í Bretlandi, hefur höfðað mál á hendur Johnson fyrir misferli í opinberu starfi. Ball segir að Johnson hafi ítrekað sett fram villandi upplýsingar og þar af leiðandi logið að bresku þjóðinni um hvað aðild að Evrópusambandinu kosti.
Á sínum tíma gagnrýndi breska hagstofan þessi ummæli Johnsons og Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, viðurkenndi eftir atkvæðagreiðsluna að fullyrðingar Johnsons hefðu verið rangar.
Sækist eftir því að taka við May
Johnson tilkynnti fyrr í maí að hann sækist eftir því að verða leiðtogi Íhaldsflokksins þegar Theresa May forsætisráðherra segir af sér. Theresa May hefur ekki enn gefið upp um hvenær hún lætur af embætti forsætisráðherra en hún kveðst fyrst vilja ljúka fyrsta áfanganum að Brexit.
Johnson sagði af sér embætti utanríkisráðherra í fyrra vegna andstöðu við stefnu Theresu May í Brexit.