„Sagan kennir okkur að það er í umhverfi efasemda sem minni spámenn sjá sér leik á borði og breyta efasemdum í ótta.“
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni í elhúsdagsumræðum í kvöld. Hún gerði að umtalsefni óttann við það þegar samfélagið breytist og ný tækifæri koma fram.
Sagði hún að það mætti öllum vera ljóst að EES-samningurinn hefði gjörbreytt íslensku samfélagi til hins betra, og opnað á ný tækifæri og leyst krafta úr læðingi.
„Það hefur mikið verið fjallað um EES-samninginn í þessum sal undanfarið. Það má öllum vera ljóst, nema þeim sem kjósa að setja kíkinn á blinda augað, að sá samningur hefur gjörbreytt íslensku samfélagi. Margir þekkja ekki annað en Ísland innan EES samstarfsins og ég efast um að þeir sem muna eftir Íslandi utan EES vilji snúa aftur til þess tíma. Það er hins vegar margt annað sem er betra að hafa að leiðarljósi við mótun utanríkis- og viðskiptastefnu okkar en þessa eitruðu blöndu af afturhaldi, fortíðarþrá og framtíðarótta,“ sagði Áslaug Arna.
Hún bað fólk að varast lukkuriddara, sem reyndu að sjá sér leik á borði, með því að ala á ótta við breytingar og alþjóðleg áhrif. „Þegar alið er á ótta er málefnaleg umræða sett í gapastokkinn og við tekur eðlishvötin. Eðlishvötin segir okkur að breytingar séu hættulegar.“
Gagnrýndi forsætisráðherra
Oddný Harðardóttir, Samfylkingu, gerði málefni barna að umtalsefni í sinni ræðu og gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur harðlega fyrir að taka málaflokkinn ekki fastari tökum, með jöfnuð og félagshyggju að leiðarljósi.
„Því miður gætir sinnuleysis stjórnvalda um málefni barna víðar því skortur er á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heilstæðri stefnu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga,“ sagði Oddný meðal annars.
Þá sakaði hún Katrínu forsætisráðherra um að segja eitt í útlöndum en gera annað á heimavelli. Hún hefði myndað „ríkisstjórn gömlu valda og íhaldsflokkanna og styður fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórn sem vill hvorki leggja á sanngjörn auðlindagjöld né láta auðmenn greiða sinn réttláta skerf til velferðarinnar. Ríkisstjórn stöðnunar og óréttlætis.“