Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022.
Hún felur í sér að dregið verði úr áformuðum afgangi á heildarafkomu hins opinbera í samræmi við breyttar efnahagshorfur sem fram koma í nýjum hagspám og fela í sér verulega röskun á forsendum fyrir gildandi stefnu.
Hagspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir 0,2 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári og Seðlabankinn gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti. Í fyrra mældist hagvöxtur 4,6 prósent, og breytingarnar því miklar á skömmum tíma, ekki síst vegna falls WOW air.
„Með breyttum horfum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist umtalsvert saman og gæti afkoman versnað um allt að 35 ma.kr. bæði árið 2019 og 2020 án allra mótvægisaðgerða. Ríkisstjórnin mun því leggja til við fjárlaganefnd að gerðar verði breytingar á fjármálaáætlun sem fela í sér ráðstafanir sem tryggja hallalausan ríkisrekstur,“ segir í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Endurskoðun rúmast innan fjármálareglna
Endurskoðuð stefna er í samræmi við tölusettar fjármálareglur laga um opinber fjármál sem þar eru settar sem skilyrði fyrir bæði fjármálastefnu og fjármálaáætlun.
Hvorki ætti að koma til þess að afkoma verði lakari en 2,5% af VLF á einu ári né að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil verði neikvæður. Hér er því ekki lagt til að vikið verði tímabundið frá fjármálareglum laga um opinber fjármál, sem lögin gera ráð fyrir að grípa megi til við endurskoðun fjármálastefnu, segir í tilkynningunni.