„Vissulega náðu popúlískir flokkar nokkrum árangri en eftir sem áður er kristaltært að þeir sem styðja vöxt og viðgang ESB eru í yfirgnæfandi meirihluta. Uppgangur popúlisma víðvegar í heiminum er verulegt áhyggjuefni og þess vegna er gleðilegt og mikilvægt að frjálslyndir flokkar unnu mest á í þessum kosningum. Frjálslyndi er nauðsynlegt mótvægi gegn ríkjum þar sem afturhald og popúlismi grefur um sig,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í eldhúsdagsumræðum í kvöld.
Hann gerði meðal annars nýafstaðnar evrópuþingkosningar að umtalsefni. Þá sagði hann að Viðreisn horfði til þess, að það væri best fyrir Ísland að treysta enn frekar tengsl sín við Evrópu og markaðssvæðið í álfunni. „Við teljum happadrýgst fyrir Íslendinga að treysta enn frekar tengsl sín við önnur ríki Evrópu með aðild að ESB og nýta þannig fullveldið til hins ýtrasta til að bæta hag þjóðarinnar,“ sagði Jón Steindór.
Þá sagði hann að Ísland legði mest að mörkum með því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, þar sem stærstu málin væru þvert á landamæri og gerðu ráð fyrir miklum og nánu samstarfi ríkja. Sagði hann þetta meðal annars eiga við um umhverfismálin og aðgerðir til að sporn við mengun.
Þá sagði hann að stjórnmálamenn þyrftu að horfa til þess, hvað væri réttast fyrir heildarhag landsins, til lengdar litið.
„Okkar hlutverk er að greina hvað er okkur til góðs og sækjast eftir því en ekki síður að átta okkur á hvað er okkur til ills og forðast það. Populismi, öfgar, þjóðernishyggja, afneitun vísinda, stjórnmál sem byggja á ótta, tilbúinni hættu og óvinum hafa aldrei í veraldarsögunni leitt til góðs. Það mun ekki heldur gerast nú, ekki á Íslandi, ekki í Evrópu og hvergi annars staðar í heiminum.“
Átta okkur á hvað er okkur til ills
„Okkar hlutverk er að greina hvað er okkur til góðs og sækjast eftir því en ekki síður að átta okkur á hvað er okkur til ills og forðast það,“ sagði Jón Steindór og hélt svo áfram: „Populismi, öfgar, þjóðernishyggja, afneitun vísinda, stjórnmál sem byggja á ótta, tilbúinni hættu og óvinum hafa aldrei í veraldarsögunni leitt til góðs. Það mun ekki heldur gerast nú, ekki á Íslandi, ekki í Evrópu og hvergi annars staðar í heiminum.“