„Ég held í það minnsta að það væri heppilegra að það væru aðrir sem kæmu að þeirri vinnu, hvort sem það er þá sem einhverskonar aðhald að bankanum eða gagnrýnisrödd að því. Það er yfirleitt þannig að það þykir óheppilegt að menn rannsaki eigin mál eða mál sem hafa komið innan þeirrar stofnunar sem er verið að fjalla um. Ég er þó ekki að segja að það sé með öllu gagnslaust.“
Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni aðspurður um hvort að heppilegt væri að Seðlabanki Íslands ynni sjálfur að gerð skýrslu um framkvæmd hinnar svokölluðu fjárfestingarleiðar bankans.
Jón Steindór bætti við að það kasti vissri rýrð á niðurstöður ef stofnanir rannsaki sig sjálfar „af því að það gefur tilefni til að stofnanir vilji birta sig í fegurra ljósi en ástæða er til.“
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Kjarninn greindi frá því í janúar síðastliðnum að Seðlabankinn ynni að gerð skýrslu um hina svokölluðu fjárfestingarleið sem bankinn bauð upp á árunum 2012-2015. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að varpa ljósi á markmið leiðarinnar og árangur hennar við að búa í haginn fyrir losun fjármagnshafta. Upplýsingar um uppruna þeirra þátttakenda sem nýttu sér leiðina verða birtar í skýrslunni eftir því sem lög leyfa og nauðsynlegt er til að ná markmiðum skýrslunnar. Skýrslan á að liggja fyrir á þessu ári.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.