Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lagði í morgun fyrir ríkisstjórn minnisblað þar sem lagt er til að veðurmælingar og flugprófanir hefjist í Hvassahrauni á komandi hausti. Kostnaður við þær er áætlaður 30 til 50 milljónir króna og myndu þær taka allt að tvö ár. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Í svarinu segir jafnframt að hugmyndir hafi verið uppi um að hagkvæmara sé að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni en halda áfram uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Af því tilefni hafi Icelandair fengið sérfræðing í gerð flugvalla, Doug F. Goldberg, til að áætla fyrir sig kostnað við nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Niðurstaðan hafi verið sú að nýr flugvöllur í Hvassahrauni yrði ódýrari en stækkunaráform Isavia á Keflavíkurflugvelli.
Af þessu tilefni setti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af stað starfshóp, undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar verkfræðings, til að skoða málið nánar. Starfshópurinn, sem skilar skýrslu sinni á næstu vikum, fékk sama ráðgjafa, Doug F. Goldberg, til að áætla fyrir sig kostnað við gerð flugvallar í Hvassahrauni með sömu afköst og þjónustu og Isavia reiknaði með í sínum áætlunum fyrir Keflavíkurflugvöll árið 2025.
Að lágmarki 15 ár frá ákvörðun þar til flugvöllurinn er tilbúinn til notkunar
Samkvæmt ráðuneytinu er mikilvægt að ljúka nauðsynlegum veðurmælingum og flugprófunum á svæðinu áður en hægt er að taka ákvörðun um það sem mögulegt flugvallarstæði. Í framhaldi þyrfti svo að fara í viðræður við sveitarfélögin og landeigendur, vinna að skipulagsbreytingum og vinna umhverfismat.
Þá kemur fram í svari ráðuneytisins að ferli fyrir nýjan flugvöll í Hvassahrauni og svo bygging vallarins og ýmissa mannvirkja taki að lágmarki 15 ár frá ákvörðun þar til flugvöllurinn er tilbúinn til notkunar. Reyndar ráðleggi OECD að miðað sé við 20 til 30 ár að lágmarki með öllum undirbúningi þegar nýr flugvöllur er byggður. Af þessu sé ljóst að ef ekki á að stöðva vaxtarmöguleika flugs og ferðaþjónustu hér á landi næstu 15 til 20 árin þurfi að halda áfram uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.
„Engu að síður kann að verða hagkvæmt á síðari stigum, ef vöxtur í flugi heldur áfram, að mæta þeim vexti með byggingu flugvallar í Hvassahrauni en þá þarf að undirbúa það með góðum fyrirvara. Af þeirri ástæðu er talið skynsamlegt að kynna hugmyndirnar fyrir sveitarfélögunum sem hlut eiga að máli, ráðast sem fyrst í þær veðurmælingar og flugprófanir sem þörf er á, en kostnaður við þær er áætlaður 30 til 50 milljónir króna og að þær taki allt að tvö ár. Þessar athuganir eru jafnframt nauðsynlegar ef byggja á upp í Hvassahrauni aðstöðu fyrir innanlands- eða kennsluflug sem brýnt er orðið,“ segir í svarinu.