„Hefði verið heppilegra ef einhver utanaðkomandi gerði þetta? Það kann vel að vera og þá þarf að búa um slík mál gaumgæfilega þannig að þeir sem það hefðu gert hefðu haft fullar rannsóknarheimildir til að komast að þessu.“
Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Jón Steindór lagði í fyrra fram fyrirspurn til forsætisráðherra þar sem hann fór fram á að fá upplýsingar um ráðstöfun neyðarlánsins sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi í október 2008, upplýsingar um hvernig ákvörðun um lánið var veitt og hvernig innheimtur af láninu voru.
Í svari sínu við fyrirspurninni beindi forsætisráðherra því til Seðlabanka Íslands að hann myndi óska eftir upplýsingum um þá ráðstöfun frá Kaupþingi ehf., slitabúi hins fallna banka.
Skýrsla Seðlabankans um veitingu lánsins var síðan birt í fyrradag.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Í skýrslunni, sem birt var á mánudag, kemur fram að ekki hafi verið unnið í samræmi við bankastjórnarsamþykkt um veitingu þrautarvaralána, sem hafði verið sett í apríl 2008, þegar neyðarlánið var veitt. Þar er einnig staðfest að engin formleg lánabeiðni hafi legið fyrir í seðlabankanum, að lánið hafi verið greitt út áður en gengið var frá lánapappírum og formlegum veðtökugögnum. Auk þess er einungis varpað ljósi á ráðstöfun á fé út úr Kaupþingi af einum bankareikningi eftir veitingu neyðarlánsins, þess reiknings sem lánið var greitt inn á.
Jón Steindór segir að það hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvort og þá hvernig verði unnið með niðurstöðu skýrslunnar á vettvangi Alþingis. „Ég held að maður muni nú í fyrsta lagi lesa þessa skýrslu gaumgæfilega og reyna að átta sig á því hvað vanti upp á og hvað sé ósagt þarna. Mér þykir ekkert óeðlilegt að ég muni óska eftir því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að það verði fjallað um skýrsluna og hvort að hún gefi nefndinni nefndinni einhvert tilefni til skoðunar á málinu eða frekari upplýsingaöflunar.“