VR, stærsta stéttarfélag landsins, hefur kallað eftir skriflegum skýringum frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna um ákvörðun sjóðsins um að hækka breytilega verðtryggða vexti sína á húsnæðislánum úr 2,06 prósent í 2,26 prósent, eða um tíu prósent, frá og með 1. ágúst næstkomandi.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það sé mjög þungt hljóð í stjórnarmönnum VR vegna málsins. Ákvörðun sjóðsins sé blaut tuska framan í verkalýðshreyfinguna og vinni gegn markmiðum hennar. „Við munum bregðast formlega við þessu í næstu viku. Þau viðbrögð munu ekki fara framhjá neinum.“
Ragnar ræddi þær áherslur sem hann og stjórn VR muni tala fyrir í stjórn lífeyrissjóðsins, sem er einn stærsti fjárfestir á Íslandi, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í febrúar. Þar sagði hann meðal annars að þeim tilmælum yrði beint til stjórnar að haga sínum fjárfestingum með þeim hætti að það verði ekki fjárfest í fyrirtækjum sem eru með kaupréttarsamninga eða ofurlaun eða bónusa. „Eða haga sér með þeim hætti eins til dæmis eins og Almenna leigufélagið, að beina viðskiptum sínum frá slíkum félögum. Það verða skýr skilaboð sem við munum senda nýrri stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.[...]Það eru skilaboð sem mig langar að senda út inn í fjármálakerfið, að menn skulu þá hugsa sig tvisvar um þegar þeir fara gegn hagsmunum launafólks með þessum hætti, að við munum beita okkur með róttækri hætti heldur en áður hefur verið.“
Stjórnin ákveður vexti
Kjarninn greindi frá því á mánudag að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði ákveðið að hækka breytilega vexti verðtryggðra lána til sjóðsfélaga frá og með 1. ágúst næstkomandi úr 2,06 prósentum í 2,26 prósent.
Vextir sjóðsins nú eru þeir lægstu sem standa íbúðakaupendum á Íslandi til boða. Eftir breytinguna munu bæði Frjálsi lífeyrissjóðurinn (2,15 prósent) og Almenni lífeyrissjóðurinn (2,18 prósent) bjóða sínum félögum upp á lægri breytileg vaxtakjör á verðtryggðum lánum.
Í staðinn fyrir að ávöxtunarkrafa ákveðins skuldabréfaflokks stýri því hverjir vextirnir eru mun stjórn sjóðsins ákveða þá. Frá þessu er greint í frétt á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í síðustu viku. Þar kom einnig fram að vextir sjóðsins á föstum verðtryggðum vöxtum frá og með föstudeginum 24. maí úr 3,6 prósentum í 3,4 prósent. Vextir á slíkum lánum haldast óbreyttir út lánstímann.
Fastir verðtryggðir vextir hafa verið umtalsvert hærri en breytilegir vextir. Ef sjóðsfélagi hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna tæki til að mynda 40 ára verðtryggð lán hjá sjóðnum upp á 30 milljónir króna, miðað við 3,3 prósent verðbólguspá, í dag þá myndi viðkomandi greiða 94,9 milljónir króna í heildargreiðslu ef hann tæki fasta vexti með jöfnum afborgunum. Ef viðkomandi myndi hins vegar velja breytilega vexti með jöfnum afborgunum, og þeir myndu haldast óbreyttir eða lækka að meðaltali á lánstímanum, þá myndi viðkomandi greiða 81,8 milljónir króna í heildargreiðslu miðað við sömu forsendur.
Vextir mun lægri en hjá bönkunum
Frá því að Lífeyrisjóður verzlunarmanna hóf endurkomu sína inn á íbúðalánamarkað að alvöru haustið 2015, með því að hækka veðhlutfall lána, lækka vexti og lækka lántökugjald, hafa vextir lána hans ákvarðast í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks Íbúðalánasjóðs (HFF150434.). Á undanförnum árum hafa viðskipti með þau bréf dregist verulega saman með þeim afleiðingum að ávöxtunarkrafan hefur dregist mikið saman.
Afleiðing þess hefur verið sú að vextir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa lækkað mjög mikið á skömmum tíma. Haustið 2015 voru vextir á breytilegum verðtryggðum lánum sjóðsins til að mynda 3,6 prósent en þeir eru nú 2,06 prósent og hafa aldrei verið lægri. Vextirnir í dag eru því 42,7 prósent lægri en árið 2015.
Þeir sem eiga rétt á að taka íbúðalán hjá lífeyrissjóðum landsins eru þó enn í mun betri stöðu en þeir sem þurfa að taka lán hjá viðskiptabönkunum. Ef íbúðarkaupanda dugar að fá 70-75 prósent lán þá getur hann tekið slík hjá lífeyrissjóðum sem hann hefur greitt til og fengið breytilega verðtryggða vexti sem eru frá 2,96 prósent (Gildi) til 2,06 prósent (Lífeyrissjóður verzlunarmanna) eins og staðan er í dag.
Viðskiptabankarnir þrír bjóða hins vegar upp á hærra veðhlutfall, eða 80 til 85 prósent af virði þeirrar eignar sem verið er að kaupa. Íslandsbanki býður upp á lægstu breytilegu verðtryggðu vextina upp að 70 prósent af virði fasteignar, sem eru 3,40 prósent. Ef viðkomandi þarf að taka hærra lán þá þarf hann að bæta við sig viðbótarláni á hærri vöxtum. Þannig er málum einnig háttað hjá Landsbankanum og Arion banka.