Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, hefur tekið við stjórn dótturfyrirtækisins Ísey útflutnings og Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri þess, látið af störfum. Þá hefur Pálmi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri framleiðslu- og rekstrarsviðs MS, verið ráðinn aðstoðarforstjóri
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, og segir Ari í viðtali við blaðið að nú sé starfsemin að vaxa hratt erlendis. „Við erum að leggja enn meiri áherslu á erlendu starfsemina, bæði með því að efla það sem við höfum verið að gera og skipuleggja í hvaða formi hún eigi að vera í framtíðinni. Talið var mikilvægt að forstjóri fyrirtækisins leiddi sjálfur þá vinnu,“ segir Ari.
Erlend starfsemi MS hefur farið verulega vaxandi. Skyr MS nýtur vaxandi vinsælda, en Ísey vörumerki félagsins er nú fáanlegt á 16 mörkuðum um allan heim, og Japan, Nýja-Sjáland og Ástralía muni brátt bætast við.
Vaxandi umsvif kalli á að miðið hjá fyrirtækinu verði stillt, og stefnan tekin á frekari vöxt erlendis, segir Ari í viðtali við Morgunblaðið.
Jón Axel segir í fréttatilkynningu að hann haf átt góð 20 ár hjá fyrirtækinu, og bjartir tímar séu framundan. „Aukningin á undaförnum árum hefur verið mikil og það hefur komið afkomu MS fyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda vel. Það er ljóst að svona árangur næst ekki nema með öflugu og góðu samstarfsfólki og réttum samstarfsaðilum. Ég kveð þetta góða samstarfsfólk mitt sem ég hef lært mikið af með þakklæti í huga og óska eftirmanni mínum Ara Edwald góðs gengis með áframhaldandi uppbyggingu Ísey til framtíðar," segir Jón Axel.