Eignir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða námu 877,2 milljörðum króna í lok apríl og hækkuðu um 25,9 milljarða króna milli mánaða, samkvæmt tölum Seðlabanka Íslandsyfir eignir í hagkerfinu.
Eignir verðbréfasjóða, sem eru meðal annars meðal hluthafa í skráðum félagum, námu 153,9 milljörðum króna og hækkuðu um 2,7 milljarða, eignir fjárfestingarsjóða námu 354,8 milljörðum og hækkuðu um 9,4 milljarða króna, og eignir fagfjárfestasjóða námu 368,5 milljörðum og hækkuðu um 13,9 milljarða króna.
Helstu breytingar í mánuðinum má rekja til félaga um sérhæfðar fjárfestingar en eignir þeirra hækkuðu um 10,6 milljarða og eignir skuldabréfasjóða hækkuðu um 6,1 milljarða króna.
Á meðal þeirra sem eru með eignir í vörslu hjá verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðum, erum lífeyrissjóðir landsmanna.
Í lok apríl var fjöldi sjóða 223, þ.e. 42 verðbréfasjóðir, 59 fjárfestingarsjóðir og 122 fagfjárfestasjóðir.
Eignir lífeyrissjóða landsmanna hafa vaxið töluvert að undanförnu, ekki síst vegna þess að erlendir eignir lífeyrissjóðanna hafa farið vaxandi í krónum talið, samhliða veikingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Eignir lífeyrissjóða námu 4.545 milljörðum króna í lok mars og hækkuðu um 94 milljarða, eða 2,1 prósent, frá síðasta mánuði.
Þar af voru eignir samtryggingadeilda 4.085 milljarðar og séreignadeilda 460 milljarðar.
Í lok mars námu innlendar eignir lífeyrissjóða 3.275 milljörðum króna. Þar af voru innlán í innlendum innlánsstofnunum 171 milljarður og innlend útlán og markaðsverðbréf 2.982 milljarðar króna.. Erlendar eignir lífeyrissjóða voru 1.270 milljarðar í lok mars.