Björgólfur Thor keypti skuldabréf í WOW en var aldrei hluthafi

Björgólfur Thor Björgólfsson segir að hann hafi aldrei verið hluthafi í WOW air og að fyrsta aðkoma hans að félaginu hafi verið þátttaka í skuldabréfaútboði 26. september í fyrra. Hann hafi tekið þátt til að styðja Skúla Mogensen.

Björgólfur Thor Björgólfsson
Auglýsing

Félag í eigu Björg­ólfs Thors Björg­ólfs­son­ar, Reliquum, átti engar kröfur á WOW air þegar það keypti skulda­bréf á félagið með reiðufé þann 26. sept­em­ber í fyrra. Alls var fjár­fest­ingin upp á þrjá millj­ónir evra, um 415 millj­ónir króna á gengi dags­ins í dag.

Þetta segir Ragn­hildur Sverr­is­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Björg­ólfs Thors, í skrif­legu svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans. Þar segir einnig að með kaupum hafi Björgólfur Thor fyrst og fremst vilja „styðja Skúla Mog­en­sen, sem hafði unnið þrek­virki við upp­bygg­ingu flug­fé­lags­ins.“

Í nýrri bók Stef­áns Ein­ars Stef­áns­sonar, við­skipta­rit­stjóra Morg­un­blaðs­ins, sem ber nafnið WOW – Ris og fall flug­fé­lags og kom út í síð­ustu viku, var í fyrsta sinn greint frá því að Björgólfur Thor hefði tekið þátt í skulda­bréfa­út­boð­inu WOW air haustið 2018. 

Auglýsing
Þar var einnig greint frá því að ríf­lega helm­ingur þess fjár­magns sem safn­að­ist með skulda­bréfa­út­gáfu WOW air í fyrra hafi runnið frá þátt­tak­end­unum til þeirra sjálfra í gegnum fléttu sem mið­aði að því að breyta skamm­tíma­skuldum þeirra í lang­tíma­skuld­ir. Alls hafi þetta átt við um 51 pró­sent þess hluta­fjár sem safn­að­ist og þeir aðilar sem Stefán Einar sagði hafa fallið undir þennan flokk voru flug­­­véla­­leig­u­­fyr­ir­tæk­in Avolon og Air­Le­ase Cor­poration (ALC), flug­­­véla­fram­­leið­and­inn Air­bus, fé­lagið Reliquum, sem er í eigu Björg­ólfs Thors, Arion banki, REA ehf., Örygg­is­mið­stöðin og S9 ehf., sem er í eigu Mar­grét­ar Ásgeir­s­dótt­­ur, fyrr­ver­andi eig­in­­konu Skúla.

Kom fyrst inn í sept­em­ber 2018

Kjarn­inn beindi fyr­ir­spurn til Björg­ólfs Thors vegna þessa og spurði hvenær Reliquum eða hafi upp­haf­lega fjár­fest í WOW air. Í svari Ragn­hildar kom fram að Reliquum hafi fjár­fest í skulda­bréfa­út­boð­inu rétt í lokin á útboðs­ferl­inu í sept­em­ber 2018.  „Fjár­fest­ingin var metin eins og hver önnur fjár­fest­ing þar sem ávöxtun þótti í sam­ræmi við áhættu miðað við fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ingar á þeim tíma.  Reliquum átti engar kröfur á WOW á þeim tíma og var greitt fyrir hin keyptu skulda­bréf með reiðufé hinn 26. sept. sl.“ Aðspurð um hvort að Björgólfur Thor eða önnur félög á hans vegum hafi fjár­fest með ein­hverjum hætti í WOW air fyrir þennan tíma svar­aði Ragn­hildur því neit­andi.

Alls nam skulda­bréfa­út­gáfa WOW air, sem varð gjald­þrota í lok mars síð­ast­lið­ins, 60 millj­ónum evra að nafn­virði, eða um 8,3 millj­örðum króna á gengi dags­ins í dag. Nor­dic Tru­stees & Agency hafa lýst kröfu í þrota­búið fyrir hönd allra skulda­bréfa­eig­enda. Reliquum stendur á bak við þá kröfu­lýs­ingu eins og aðrir skulda­bréfa­eig­end­ur.

Auglýsing
Í svari Ragn­hildar segir að hlut­hafar geti að sjálf­sögðu ekki lýst kröfum í félög sín, svo kröfu­lýs­ingin stað­festi að til­lögur um breyt­ingu krafna í hlutafé hafi aldrei náð aldrei fram að ganga. For­sendur fyrir þeirri breyt­ingu voru þær að nýir fjár­festar kæmu inn með aukið hluta­fé, sem hafi aldrei gerst. „Björgólfur Thor var því aldrei hlut­hafi í WOW, eins og rang­lega er sagt í bók­inn­i.“

Birti færslu

Björgólfur Thor birti í dag færslu á heima­síðu sinni, www.bt­b.is, um mál­ið. Þar end­ur­tók hann að mestu það sem fram hafði komið í svörum Ragn­hildar til Kjarn­ans og bætti við að hann hafi sam­þykkt þær til­lögur sem lagðar voru fyrir skulda­bréfa­eig­endur um að hugs­an­lega breyta kröfum í hluta­fé, í þeim til­gangi að bjarga verð­mæt­um. For­senda þess hafi þó verið sú, líkt og áður hefur verið rak­ið, að nýir fjár­festar kæmu með hlutafé inn í WOW air, sem gekk ekki eft­ir. 

Hann segir missi af WOW air og að leitt sé að ekki hafi tek­ist að koma félag­inu fyrir vind. „Ég leyfi mér þó að vona að umfjöllun um mál­efni félags­ins verði rétt og sann­gjörn og að rang­færsl­ur, á borð við þá að ég hafi verið hlut­hafi í WOW eða átt ein­hverja aðkomu þar aðra en kaup á skulda­bréfum sl. haust, heyri sög­unni til.“

Meira úr sama flokkiInnlent