Mynd: Isavia

Hörð lending

Uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefur verið ævintýri líkastur á undanförnum árum. Óhætt er að tala um að gengið hafi verið hratt um gleðinnar dyr í greininni. Víða er nú hagræðing í kortunum og útlit fyrir samdrátt í komu ferðamanna til landsins á þessu ári. Það er ekki aðeins gjaldþrot WOW air í gær sem er til merkis um breytta tíma, heldur einnig fleiri þættir. Hvernig sköpuðust þessar aðstæður? Hvað er framundan?

Í nóv­em­ber 2011 stofn­aði Skúli Mog­en­sen WOW air. Seint í þeim mán­uði opn­aði Jóna Lovísa Jóns­dótt­ir, prestur og fit­ness­meist­ari, miða­sölu­vef fyr­ir­tæk­is­ins og 31. maí 2012 fór það í jóm­frú­ar­flug sitt til Par­ís­ar. Strax í byrjun var ljóst að Skúli Mog­en­sen, mað­ur­inn á bak­við WOW air og eini eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins, ætl­aði sér að fara óhefð­bundnar leið­ir. Ástæða þess að hann fékk Jónu Lovísu til að hefja starf­sem­ina var sú að Skúli vildi brjóta upp þá hefð að ráða­menn væru fengnir til slíkra verka. WOW air hefði viljað leitað til ein­hvers sem hefði dugn­að, kjark og þor til að ögra sjálfum sér og við­teknum venj­um. Það yrði líka leið­ar­ljós WOW air í starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins. Starf­semi sem lauk í gær­morgun með gjald­þroti.

Á þessum tíma var efna­hagur lands­ins byrj­aður að taka kröft­ug­lega við sér eftir hrun fjár­mála­kerf­is­ins og dramat­ískan tíma í þjóð­líf­inu, ekki síst eftir að eld­gos hófst í Eyja­fjalla­jökli í apríl 2010 og olli gíf­ur­lega kostn­að­ar­samri röskun á flugi í Evr­ópu, vegna ösk­unnar sem fauk yfir álf­una. Ísland var á þessum tíma sífellt í fréttum og á sjón­varps­skjám, og lík­lega hefur landið aldrei fengið aðra eins aug­lýs­ingu á erlendum vett­vangi, þó margir hafi verið æfir vegna þess hve mikil áhrif gosið hafði á flug­um­ferð.

Gos og betri tíð

Það eru margir sem rekja upp­hafið að miklum upp­gangi í íslenskri ferða­þjón­ustu sér­stak­lega til þessa atburð­ar, án þess að það sé hægt að full­yrða mikið um hversu stóran þátt hann átti í því að kveikja áhuga fólks erlendis á Íslandi. Hvað sem það var sem kveikti neist­ann, þá upp­hófst tíma­bil í ferða­þjón­ust­unni sem var með ólík­indum grósku­mik­ið.

WOW air varð til við upp­haf þess tíma­bils og varð líka nokk­urs konar birt­ing­ar­mynd þess upp­gangar sem átti sér stað. Rekst­ur­inn var erf­iður til að byrja með og á fyrstu þremur rekstr­ar­árum sínum tap­aði WOW air sam­tals 1,7 millj­örðum króna. Á árinu 2015 varð hins vegar við­snún­ingur þegar WOW air hagn­að­ist um 1,1 millj­arð króna. Í við­tali við fréttir Stöðvar 2, þegar þessi nið­ur­staða lá fyr­ir, sagði Skúli að „í öllum mínum sam­­skiptum við reynslu­­bolta að utan þá hafa þeir verið mjög imponeraðir nán­­ast frá fyrsta degi með það sem við höfum verið að gera. Það hefur ávallt verið hvatn­ingin frekar heldur en að hlusta á svart­­sýn­is­röflið á Ísland­i.“

Í lok árs 2016 var Skúli svo val­inn við­skipta­maður árs­ins, eftir að hafa lent í öðru sæti árið 2015. Hann virt­ist vera að finna nýja leið til þess að takast á við hinn gam­al­gróna flug­rekstr­ar­heim og lét hafa eftir sér í erlendum fjöl­miðlum í upp­hafi árs 2017 að hann sæi fyrir sér að það yrði ókeypis að fljúga í fram­tíð­inni. Tekj­urnar myndu frá sölu á hót­elgist­ingu, leigu á bílum og annarri auka­þjón­ustu.

Og WOW air var ekki hætt. Fyr­ir­tækið skil­aði met­hagn­aði árið 2016, alls 4,3 millj­örðum króna. Skúli fór í við­tal við Björn Inga Hrafns­son í sjón­varps­þætt­inum Eyj­unni, sem er ekki lengur til, snemma árs 2017. Þar ræddu þeir meðal ann­ars það mark­mið WOW air að verða stærra en Icelanda­ir. Skúli sagði að það væru veru­legar líkur á því að WOW air yrði með fleiri far­þegar strax árið eft­ir. WOW air var þá að und­ir­búa að taka inn breið­þotur í starf­semi sína og fljúga lengri flug­leggi, sem hafði ekki verið hluti af kjarna­starf­semi WOW air fram að þeim tíma.

Gosið í Eyjafjallajökli vakti heimsathygli á Íslandi. Sem reyndist mikil landkynning.
Mynd: EPA

Í við­tal­inu sagði Skúli að hann hefði „látið það líka flakka að það er ágætt að stefna að því að verða Íslands­meist­ari en ég hef miklu meiri áhuga á að verða heims­meist­ari. Þess vegna er ég að horfa á Norweg­ian með þeirra 155 vélar og þeir verða með 178 vélar á næsta ári. Þannig að þegar við erum að bera okkur saman við önnur flug­fé­lög þá erum við að horfa á fremstu lággjalda­fé­lögin í heim­inum og læra af þeim og skoða hvernig þau eru að vaxa og hvaða ákvarð­anir þau eru að taka. Fyrir vikið erum við að fara erlendis líka. Það er afleið­ing af því, að við erum að verða stærri en Icelanda­ir, en það er ekk­ert mark­mið í sjálfu sér.“

Sam­dráttur í kort­unum

Nú er WOW air farið á haus­inn. Og framundan er sam­dráttur í ferða­þjón­ustu, miðað við árið í fyrra, sem var þó eftir sem áður enn eitt metárið í geir­an­um. Um 2,5 millj­ónir ferða­manna heim­sóttu landið miðað við 2,3 millj­ónir 2017. Gjald­eyr­is­tekjur sem erlendir ferða­menn færa þjóð­ar­bú­inu ár hvert eru metnar á yfir 500 millj­arða, miðað við stöðu mála eins og hún var í fyrra. Engin atvinnu­grein kemst nærri ferða­þjón­ust­unni, hvað þetta varð­ar, og er hún nú orðin mikið burð­ar­virki í hag­kerf­inu. Stærsta stoðin undir íslenska efna­hags­kerf­inu.

Ef horft er aftur til árs­ins 2010 þá voru gestir árlega 450 þús­und og gjald­eyr­is­tekjur vegna ferða­þjón­ustu aðeins um 20 pró­sent af því sem þær eru nú. Það er ekki aðeins mikil fjölgun sem hefur skipt máli heldur einnig mikil grósku í upp­bygg­ingu ýmissar þjón­ustu, svo sem veit­inga- og gisti­þjón­ustu.

Það er til marks um miklar breyt­ingar á und­an­förnum árum, hversu mikið lands­mönnum hefur fjölg­að.

Hinn 1. jan­úar 2010 bjuggu 317.600 á Íslandi en 1. jan­úar á þessu ári var fjöld­inn kom­inn upp í 356 þús­und. Á þessum átta ára tíma hefur lands­mönnum því fjölgað um tæp­lega 40 þús­und manns. Þar af hefur vinnu­mark­að­ur­inn stækkað um 20 þús­und ein­stak­linga og telur hann nú um 203 þús­und.

Í tölum Hag­stofu Íslands hefur mátt sjá að stór hluti nýrra starfa hefur verið í ýmsum störfum innan ferða­þjón­ust­unnar og bygg­ing­ar­iðn­aði. Um 75 pró­sent nýrra skatt­greið­enda á und­an­förnum árum hafa verið inn­flytj­end­ur, sem hafa komið hingað til lands til að vinna hin ýmsu störf, ekki síst innan ferða­þjón­ust­unn­ar. Að þessu leyti má segja að upp­gangs­tím­inn í ferða­þjón­ust­unni hafi ekki aðeins styrkt hag­kerf­ið, almennt, heldur ekki síður haft víð­tæk sam­fé­lags­leg áhrif þar sem hlutur inn­flytj­enda af heild­ar­fjölda hefur vaxið hratt.

Of dökk mynd?

Vaxt­ar­verkir fylgja gjarnan hraðri upp­bygg­ingu í heilum atvinnu­greinum og það hefur verið raunin með ferða­þjón­ust­una. Sér­stak­lega hafa verka­lýðs­fé­lög og stétt­ar­fé­lög kvartað undan því að sá mikli straumur erlendra starfs­manna sem komið hafi til lands­ins á und­an­förnum árum, hafi verið það mik­ill að ekki hafi tek­ist að passa upp á að fólkið njóti rétt­inda sem það á að njóta.

Þetta hefur meðal ann­ars verið meðal þess sem fólk í for­svari fyrir stétt­ar­fé­lögin hefur nefnt að sé mik­il­vægt að upp­ræta með öllu. Í þeim hörðu kjara­við­ræðum og verk­falls­að­gerðum hafa spjótin ekki síst beinst að ferða­þjón­ust­unni, og útlit fyrir að þær aðgerðir haldi áfram. Þannig hefur óánægja með lág laun ekki síst vera hjá starfs­fólki ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja.

Þrátt fyrir að nýj­ustu tölur bendi til þess að sam­dráttur verði í komu ferða­manna til lands­ins á þessu ári, þá er ekki þar með sagt að alvar­leg staða sé komin upp. Ferða­manna­fjöld­inn gæti orðið svip­aður á þessu ári og hann var á árunum 2017 og 2018. Erf­ið­leikar hjá flug­fé­lögum geta sett strik í reikn­ing­inn.

WOW tapar dauða­stríð­inu

Þeir erf­ið­leikar hafa verið að gerj­ast í tvö ár. Mikil og skörp hækkun á heims­mark­aðs­verði á olíu, áfram­hald­andi styrk­ing krón­unnar og gríð­ar­lega hörð sam­keppni gerði öllum sem kepptu á mark­aðnum erfitt fyrir strax árið 2017.

Áhrifin á WOW air voru mik­il. Fyr­ir­tækið tap­aði 2,4 millj­örðum króna á árinu 2017 og um mitt ár 2018 átti fyr­ir­tækið of lítið eigið fé til að takast á við þá stöðu sem var uppi. Icelandair skil­aði hagn­aði það árið en hann var 58 pró­sent lægri en árið áður. Mun­ur­inn var þó sá, á fyr­ir­tækj­unum tveim­ur, að Icelandair átti mikið eigið fé til að takast á við sveiflur og til að leið­rétta mis­tök sem það hafði gert í breyt­ingum á rekstr­ar­mód­eli sínu.

Eins og greint hefur verið frá und­an­farna mán­uði þá hefur WOW air verið í líf­róðri mán­uðum sam­an. Í raun hafði starf­semi félags­ins dreg­ist saman um helm­ing áður en það hætti loks starf­semi, frá því hún var umfangs­mest, en þá var félagið að flytja til lands­ins 600 til 700 þús­und erlenda ferða­menn á ári. Í stað þess að verða heims­meist­ari, og stækkað flota sinn upp í á annað hund­rað vél­ar, hefur fyr­ir­tækið þurft að draga skarpt saman segl­in. Vél­unum sem það notar hafði fækkað úr 24 í 11. Þar af voru tvær kyrr­settar í lið­inni viku og enn fleiri á fimmtu­dags­kvöld.

Í upp­hafi lið­innar viku tóku hluti kröfu­hafa WOW air síðan fyr­ir­tækið yfir. Hlutafé Skúla Mog­en­sen átti að afskrifa að öllu leyti með þeirri aðgerð en hann átti að geta haldið litlum hlut vegna þess að Skúli til­heyrði líka hópi kröfu­hafa. Enn átti þó eftir að hnýta marga lausa, og erf­iða, enda í þeirri veg­ferð, meðal ann­ars með því að semja við aðra kröfu­hafa fyr­ir­tæk­is­ins og að sann­færa ein­hvern um að koma með nýtt hluta­fé, um fimm millj­arða króna hið minnsta, inn í rekst­ur­inn. Það náð­ist ekki og WOW air skil­aði inn flug­rekstr­ar­leyf­inu í gær­morg­un.

Hvernig sem færi hjá WOW air þá var staða félags­ins þegar búin að taka það miklum breyt­ingum á skömmum tíma, að tölu­vert högg var þegar komið á ferða­þjón­ust­una. Það mun koma í ljós í sum­ar, hversu mikið það verð­ur, en yfir­leitt skýrist bók­un­ar­staðan fyrir háanna­tím­ann ekki end­an­lega fyrr á vor­mán­uð­um, þar sem sífellt algeng­ara er að ferða­menn bóki sér frí með skömmum fyr­ir­vara.

Icelandair glímir við ann­ars háttar vanda

Icelandair hefur einnig gengið í gegnum tölu­verða erf­ið­leika að und­an­förnu, og tap félags­ins á síð­ustu þremur mán­uðum síð­asta árs upp á 6,8 millj­arða króna gefur vís­bend­ingu um harða sam­keppni í flug­iðn­aði í heim­inum um þessar mund­ir.

Slök afkoma Icelandair gerði það að verkum að það virkj­uð­ust ákvæði gagn­vart eig­endum skulda­bréfa­flokka félags­ins sem ekki tókst að end­ur­semja við. Því fékk Icelandair um tíu millj­arða króna að láni frá rík­is­bank­anum Lands­bank­anum í byrjun árs 2019 til að gera upp við þá. Í raun var Lands­bank­inn að taka yfir þann hluta fjár­mögn­unar Icelandair vegna þess að skulda­bréfa­eig­end­urnir vildu ekki halda á henni leng­ur.

Verðið á Íslandi sveiflast með krónunni

Gengi krónunnar krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur veikst nokkuð að undanförnu, en Ísland er orðinn einn af dýrustu áfangastöðum í Evrópu, sé horft yfir tímabil síðustu 18 mánaða. Raungengi krónunnar hefur á þessum tímabili verið sögulega hátt í. Ferðamönnum fór að fjölga mun hægar, og síðan að fækka í samanburði við sama tíma árið á undan. Fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra fjölgaði brottförum erlendra ríkisborgara frá Keflavík um 5,5 prósent samanborið við um 28,2 prósent vöxt á sama tíma 2017.

Svipaða sögu er að segja um fjölda gistinátta útlendinga á hótelum og gistiheimilum sem fjölgaði einungis um 1,7 prósent á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við um 10,9 prósent vöxt á sama tíma í fyrra. Hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar hins vegar hraðar en gistinóttum sem kemur fram í lækkuðu nýtingarhlutfalli.

Þó er nýtingin enn góð í alþjóðlegum samanburði, segir í greiningu Seðlabanka Íslands, sem birtist í Fjármálastöðugleika. „Meðalgreiðslukortanotkun hvers erlends ferðamanns mæld í krónum hefur nánast staðið í stað á milli ára, sé horft fram hjá liðnum flugsamgöngur í kortaveltunni. Í lok júní 2018 námu útlán stóru viðskiptabankanna til ferðaþjónustu tæplega 10 prósent af heildarútlánum þeirra til viðskiptavina. Dregið hefur úr útlánavexti til greinarinnar að undanförnu og var ársvöxtur útlána til ferðaþjónustu um 13 prósent í lok júní sl., samanborið við um 20 prósent í árslok 2017.1 Eftir mjög kröftugan vöxt ferðaþjónustu á undanförnum árum hefur dregið hratt úr vexti hennar á síðustu mánuðum. Hátt raungengi er óhagstætt greininni og við það bætist hátt olíuverð sem mun fyrr eða síðar koma fram í hærri flugfargjöldum til landsins. Verði meiri samdráttur í framboði flugsæta til landsins mun það hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.

Horft fram á veginn getur ferðaþjónustan líklega ekki treyst á tekjuvöxt vegna frekari fjölgunar ferðamanna. Á næstu misserum kemur í ljós hvort fjárfest hefur verið um of í greininni. Bankarnir verða að vera undir það búnir að mótaðilaáhætta í greininni raungerist og að til útlánataps geti komi vegna rekstrarvanda einstakra aðila,” sagði í Fjármálastöðugleika.

Und­an­farnir mán­uðir hafa líka leitt að sér aðrar ófyr­ir­séðar áskor­an­ir, og bann við notkun á 737 Max 8 vélum Boeing, eftir hörmu­leg flug­slys í Indónesíu og Eþíópíu sem urðu sam­tals 346 að bana, öllum um borð í báðum vél­um, hefur haft nei­kvæð áhrif á starf­sem­ina. Í til­kynn­ingum frá Icelandair hefur þó komið fram að félagið geti til skamms tíma leyst þann vanda sem fylgir því að þurfa að taka þrjár vélar af fyrr­nefndri gerð úr umferð, en til lengri tíma þarf að finna var­an­lega lausn á mál­un­um, ef bannið við notkun á vél­unum dregst á lang­inn.

Icelandair er þó í sterkri fjár­hags­stöðu þegar kemur að eigið fé. Í lok árs í fyrra nam eigið fé 55 millj­örðum króna, en skuld­irnar voru 992 millj­ónir Banda­ríkja­dala, eða sem nemur um 110 millj­örðum króna. Búast má við því að næstu mán­uðir verði krefj­andi fyrir íslensku flug­fé­lög­in. Þrátt fyrir að á þriðja tug flug­fé­laga fljúgi til Íslands og tengi landið við um 100 áfanga­staði, þá voru Icelandair og WOW air mik­il­væg­ustu flug­fé­lögin þegar kemur að íslenskri ferða­þjón­ustu. Nú er Icelandair eitt í þeirri stöðu.

„Ögrandi rekstr­ar­um­hverfi“

Sam­dráttur eða kólnun í íslenskri ferða­þjón­ustu hefur átt sér þó nokkurn aðdrag­anda.

Það var oft gaman hjá Skúla Mogensen á meðan að á WOW-ævintýrinu stóð. Gamanið tók enda á fimmtudag.
Mynd: Skjáskot

Í Fjár­mála­stöð­ug­leika, riti Seðla­banka Íslands, kom fram í byrjun árs í fyrra að teikn væru á lofti um minni tíðni beinna flug­ferða til og frá land­inu. „Sam­keppni í flugi hefur auk­ist und­an­farin miss­eri og hefur hún meðal ann­ars birst í því að flug­fé­lög hafa ekki hækkað far­gjöld þrátt fyrir tals­verða hækkun olíu­verðs sl. mán­uði. Víða glíma flug­fé­lög því við rekstr­ar­erf­ið­leika eins og nýlegt gjald­þrot Pri­mera air, sem ann­að­ist meðal ann­ars leiguflug fyrir íslenskar ferða­skrif­stof­ur, er dæmi um. Íslensku milli­landa­flug­fé­lögin hafa ekki farið var­hluta af þess­ari þróun og glíma bæði við ögrandi rekstr­ar­um­hverf­i,” sagði í grein­ingu Seðla­bank­ans.

Segja má að þetta hafi gengið eft­ir, og staðan orðið enn erf­ið­ari þegar ljóst varð að WOW air var gjald­þrota.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar