Mynd: Icelandair/skjáskot icelandairold.png
Mynd: Icelandair/skjáskot

Markaðsvirði Icelandair Group lækkað um 30 milljarða á innan við mánuði

Stríðið í Úkraínu hefur orsakað gríðarlegar hækkanir á eldsneytisverði. Flugfélög finna verulega fyrir því enda hefur verðið á þotueldsneyti hækkað um tugi prósenta á nokkrum dögum. Hlutabréf íslensku flugfélaganna, Icelandair Group og PLAY, hafa samhliða hrunið í verði.

Þann 10. febr­úar síð­ast­lið­inn voru kynntar til­lögur stjórnar Icelandair Group sem leggja átti fyrir aðal­fund félags­ins. Þær báru með sér að þeir sem stýra flug­fé­lag­inu töldu að bjart væri framund­an. Eftir næstum 80 millj­arða króna tap á fjórum árum, sem að hluta til var vegna rangra rekstr­ar­á­kvarð­anna á árunum 2018 og 2019 en að mestu vegna áhrifa kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins á árunum 2020 og 2021, væri við­snún­ing­ur­inn handan við horn­ið.

Icelandair Group hafði farið í gegnum mikla svipti­vinda. Félagið hafði þurft að semja af hörku við starfs­fólk sitt til að fá það til að þiggja lægri laun en vinna meira til að bæta rekstr­ar­hæfi sitt. Það hafði sótt 33 millj­arða króna í nýtt hluta­fé, meðal ann­ars til almenn­ings á Íslandi, og um leið þynnt út stærstu hlut­hafa sína að mestu leyti, en þar voru íslenskir líf­eyr­is­sjóðir fyr­ir­ferða­mikl­ir. Það hafði þegið marga millj­arða, meira en nokkuð annað félag, úr rík­is­sjóði vegna aðgerða sem ráð­ist var í til að hjálpa atvinnu­líf­inu í gegnum kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn.  

Eft­ir­spurn eftir stjórn­endum sögn kalla á bónus­kerfi

Í febr­úar leit út fyrir að það versta væri að baki. Þremur dögum áður en til­lögur stjórnar voru kynnt­ar,  7. febr­ú­ar, var greint frá því að fjár­hags­staða Icelandair Group væri nú það sterk, og það bjart framund­an, að tíma­bært væri að segja upp lána­línu upp á 16,5 millj­arða króna með rík­is­á­byrgð. 

Þegar til­lög­urnar urðu opin­berar var ljóst af hverju það lá á að segja upp þeirri lána­línu, átta mán­uðum áður en hún rann út. Inn­leiða átti kaupauka- og kaup­rétt­ar­kerfi fyrir lyk­il­stjórn­endur Icelanda­ir. Sam­kvæmt kaup­rétt­ar­kerf­inu átti að láta lyk­il­stjórn­endur fá allt af 25 pró­sent af árs­launum sínu í formi kaup­rétt­ar, og að gefa alls út 900 millj­ónir nýja hluti á þremur árum vegna þessa. Miðað við gengi bréfa í Icelandair Group á þeim degi sem til­lögur stjórnar voru kynntar var mark­aðsvirði þeirra nýju hluta sem átti að færa lyk­il­stjórn­endum rúm­lega tveir millj­arðar króna. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, er á meðal þeirra sem kaupauka- og kaupréttarkerfi félagsins nær til.
Mynd: RÚV/Skjáskot

Bónus­kerfið var sagt nauð­syn­legt svo hægt yrði að draga úr líkum á að lyk­il­starfs­menn myndu yfir­gefa félagið með litlum fyr­ir­vara. Það væri við­var­andi áhætta fyrir félagið að lyk­il­­­­­starfs­­­­­menn hætti þar sem þeir fái ekki næg­i­­­­­lega vel greitt fyrir störf sín.

Inn­rás breytti öllu

Þann 21. febr­úar 2022 lýstu Rússar yfir sjálf­stæði hér­að­anna Donetsk og Luhansk í aust­ur­hluta Úkra­ínu og þremur dögum síðar hófst inn­rás Rússa inn í nágranna­land­ið.

Vest­ur­veldin gripu sam­stundis til stór­tækra efna­hags­þving­ana gagn­vart Rúss­landi sem beindust meðal ann­ars að því að hefta orku­sölu lands­ins, en Rúss­land er einn stærsti fram­leið­andi af olíu og gasi í heim­in­um. Sam­kvæmt frétt sem Bloomberg birti í byrjun viku stefnir Evr­ópu­sam­bandið til að mynda á að draga gasinn­flutn­ing sinn frá Rúss­landi saman um næstum 80 pró­sent áður en árið 2022 er á enda runn­ið. 

Stríðið í Úkraínu hefur margháttuð áhrif á efnahagsmál á Íslandi.
Mynd: EPA

Stríðs­rekst­ur­inn og efna­hags­þving­anir vest­ur­velda hafa leitt til þess að elds­neyt­is­verð hefur rokið upp. Um tíma fór verðið á hverri tunnu á hrá­olíu í 130 Banda­ríkja­dali á mánu­dag. Til sam­an­burðar var það 20 Banda­ríkja­dalir á tunnu í apríl 2020 og 92 Banda­ríkja­dalir 19. febr­úar síð­ast­lið­inn. 

Ein þeirra atvinnu­greina sem kaupir gríð­ar­legt magn af jarð­efna­elds­neyti eru flug­fé­lög. 

Verðið langt yfir áætl­unum

Í aðdrag­anda þess að Icelandair sótti þorra þess nýja hluta­fjár sem félagið fékk í end­ur­skipu­lagn­inga­ferli sínu, í stóru útboði í sept­em­ber 2020, var birt fjár­festa­kynn­ing sem inni­hélt meðal ann­ars spá um verð á þotu­elds­neyti næstu árin. Hún gerði ráð fyrir að með­al­verð á því yrði 438 Banda­ríkja­dalir á hvert tonn árið 2022. 

Á upp­gjörs­fundi sem Icelandair hélt vegna birt­ingar á árs­upp­gjöri sínu í febr­úar síð­ast­liðnum sagði Bogi Nils Boga­son, for­stjóri félags­ins, að gert væri ráð fyrir að elds­neyt­is­verðið yrði mun hærra í ár en spáð var í fjár­fest­inga­kynn­ing­unni, eða um 800 Banda­ríkja­dalir á tonn. Hluti þess kostn­aðar myndi lenda á flug­fé­lög­unum þar sem ómögu­legt væri að velta honum að fullu út í far­gjöld. 

Þró­unin síð­ustu daga hefur verið langt yfir þeim mörk­um. Á mánu­dag stóð verðið á tonni af þotu­elds­neyti í 1.341 Banda­ríkja­dal og hafði hækkað um helm­ing á tíu dög­um. 

Morg­un­blaðið greindi frá því 16. febr­úar síð­ast­lið­inn að Icelandair væri með 29 pró­sent af áætl­aðri elds­neyt­is­notkun sinni varin á fyrsta árs­fjórð­ungi 2022 og 23 pró­sent á öðrum árs­fjórð­ungi. Þeir samn­ingar tryggja kaup á elds­neyti fyrir 660 Banda­ríkja­dali á tonn­ið, sem er umtals­vert undir heims­mark­aðs­verði sem stend­ur. Þeir varn­ar­samn­ingar gilda þó bara fram á mitt þetta ár og þorri elds­neytis­kaupa Icelandair er áfram sem áður á mark­aðs­verð­i. 

Næstum 30 millj­arðar horfnir

Afleið­ingin hefur verið sú að hluta­bréfa­verð Icelandair Group hefur hrun­ið. Frá 10. febr­ú­ar, deg­inum sem áform um upp­setn­ingu bónus­kerfis fyrir lyk­il­starfs­menn voru kynnt, hefur þriðj­ungur af mark­aðsvirði félags­ins þurrkast út. Það hefur hrapað úr 86,6 millj­örðum króna í 56,7 millj­arða króna. Næstum 30 millj­arðar króna af virði hlut­hafa hefur horf­ið. 

Samt sem áður var til­lög­unni haldið til streitu á aðal­fundi Icelandair Group þann 3. mars síð­ast­lið­inn. Þar var hún sam­þykkt með naumum meiri­hluta. Þrír stærstu líf­eyr­is­sjóð­irnir í hlut­hafa­hópi Icelandair Group; Gildi, Brú og Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins (LSR) lögð­ust allir gegn til­lög­unni. Sam­an­lagt eiga sjóð­irnir um tíu pró­sent hlut í Icelandair Group.

Komið niður við útboðs­gengi

Hitt milli­landa­flug­fé­lagið sem starf­rækt er hér­lend­is, PLAY, skráði sig á First North mark­að­inn í fyrra. Í hluta­fjár­út­boði sem fór fram í aðdrag­anda skrán­ingar voru seldir hlutir fyrir 4,3 millj­arða króna. Eft­ir­spurn var átt­föld en alls bár­ust til­boð upp á 33,8 millj­arða króna. Útboðs­­gengið hjá PLAY nam 20 krónum á hlut fyrir til­­­boð yfir 20 millj­­ónum króna og 18 krónum á hlut fyrir til­­­boð undir 20 millj­­ón­um króna.

Hlutabréf PLAY voru skráð á markað í júlí í fyrra.
Mynd: Nasdaq Iceland

Á fyrsta við­skipta­degi með bréf félags­ins eftir skrán­ingu hækk­aði virði þeirra um 23 til 37 pró­sent og dagsloka­gengið þann dag, 9. júlí í fyrra, var 24,6 krónur á hlut. Í októ­ber náði hluta­bréfa­verðið því að verða 29,2 krónur á hlut. Síðan þá hefur það hríð­fallið og var 20,1 króna á hlut í lok dags í gær. Virðið hefur því dreg­ist saman um næstum þriðj­ung frá því í haust. Mark­aðsvirðið er nú rétt yfir 14 millj­arðar króna sem er 6,4 millj­örðum króna minna en í októ­ber. 

PLAY er ekki með neinar elds­neyt­is­varnir og tap­aði 1,4 millj­arði króna á fyrstu níu mán­uðum síð­asta árs.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar