Mynd: Birgir Þór Harðarson

Heildaraflaverðmæti íslenskra útgerða var 162 milljarðar í fyrra og hefur aldrei verið meira

Árin sem kórónuveirufaraldurinn herjaði á heiminn hafa verið tvö af þeim best í sögu íslensks sjávarútvegs. Virði þess afla sem útgerðir hafa veitt hefur vaxið ár frá ári og aukinn loðnukvóti mun nær örugglega gera 2022 að mjög góðu ári líka. Íslenskur sjávarútvegur borgaði minna í opinber gjöld á árinu 2020 en hann gerði í arðgreiðslur til eigenda sinna.

Heild­ar­afla­verð­mæti þess fisks sem skip íslenskra útgerða veiddu í fyrra var 162,2 millj­arðar króna miðað við fyrstu sölu. Afla­verð­mætið jókst alls um níu pró­sent milli ára, en það var 148,3 millj­arða króna árið 2020. Þegar litið er aftur í tím­ann var besta ár íslenskra útgerða árið 2012 þegar stór­auknar mak­ríl­veiðar og lágt gengi krónu sköp­uðu mikið góð­æri fyrir íslenskra útgerð­ir. Það ár var heild­ar­afla­verð­mæt­ið, á föstu verð­lagi, 159,3 millj­arðar króna. 

Því var síð­asta ár besta ár íslenskra útgerða frá upp­hafi er miðað er við heild­ar­afla­verð­mæti. Þetta má lesa úr tölum sem Hag­stofa Íslands birti í byrjun mán­að­ar. 

Stóra breyt­ingin milli ára var í síld og loðnu. Afla­verð­mæti útgerða vegna fyrstu sölu á síld sem þær veiddu jókst um 49 pró­sent milli ára, eða um 3,3 millj­arða króna. Loðnu­kvóta var úthlutað í fyrsta sinn í nokkur ár á árinu 2021. Var um að ræða stærstu úthlutun í loðnu í tæp 20 ár. Afla­verð­mæti þeirrar loðnu sem búið var að veiða, landa og selja um síð­ustu ára­mót var  10,8 millj­arðar króna á síð­asta ári en þorri þeirra verð­mæta varð til í des­em­ber. Vænt­ingar eru til þess að loðnu­ver­tíðin skili yfir 50 millj­örðum króna í nýjar tekj­ur. 

Aukið verð­mæti í heims­far­aldri

Kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn hefur því ekki haft nei­kvæð áhrif á sjáv­ar­út­veg­inn. Heild­ar­afla­verð­mæti hans vegna fyrstu sölu jókst milli áranna 2019 og 2020 og svo aftur í fyrra, með áður­nefndum afleið­ingum að það hefur aldrei verið meira innan árs.

Árið 2020 var samt sem áður ekk­ert slor í rekstri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja. Bók­­fært eigið fé íslensks sjá­v­­­ar­út­­­vegs var 325 millj­arðar króna í lok þess árs og hafði aldrei verið meira. Þar er um að ræða hreinar eignir þegar búið er að greiða arð út úr geir­­anum og gera upp öll opin­ber gjöld. Alls jókst bók­­fært eigið fé sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækja um 28 millj­­arða króna milli áranna 2019 og 2020 og um 104 millj­­arða króna frá árinu 2014. Búast má við því að það hafi enn auk­ist umtals­vert  í fyrra.

Vert er að taka fram að eigið fé útgerð­ar­fyr­ir­tækja er stór­lega van­met­ið, en í flestum til­fellum eru afla­heim­ildir bók­færðar á nafn­virði, ekki upp­lausn­ar­virði. Heild­ar­virði kvóta í lok árs 2020 var 1.200 millj­­arða króna miða við síð­­­ustu gerðu við­­skipti með hann. Við á tölu má bæta þeim afla­heim­ild­um sem úthlutað var end­ur­gjalds­laust í loðnu í fyrra, en þær eru metnar á 65 til 110 millj­­arða króna. Afla­heim­ild­irnar fóru að mestu end­­ur­gjalds­­laust til stór­út­­­gerða. 

Mik­ill hagn­aður á fáum árum

Í Sjá­v­­­­ar­út­­­­­vegs­­­gagna­grunni Deloitte ­sem kynntur var á Sjá­v­­­­ar­út­­­­­vegs­deg­inum 2021 sem fór fram í nóv­em­ber í fyrra kom fram að hagn­aður fyr­ir­tækja í sjá­v­­­ar­út­­­vegi hafi verið 181 millj­­arður króna frá byrjun árs 2016 og út árið 2020.

Bók­­fært eigið fé íslensks sjá­v­­­ar­út­­­vegs hafði aldrei verið meira en það var í lok árs 2020, þegar það var 325 millj­­arðar króna. Þar er um að ræða hreinar eignir þegar búið er að greiða arð út úr geir­­anum og gera upp öll opin­ber gjöld. Alls jókst bók­­fært eigið fé sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækja um 28 millj­­arða króna milli áranna 2019 og 2020 og um 104 millj­­arða króna frá árinu 2014 til loka árs 2020. 

Í ljósi þess að afla­verð­mæti var meira árið 2020 en það var 2019, og enn meira árið 2021 en það var 2020, þá má ætla að hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna hafi vænkast enn meira á síð­ustu tveimur árum. Vís­bend­ingar um það sáust til að mynda í árs­upp­gjöri Brim, eins stærsta útgerð­ar­fyr­ir­tækis lands­ins sem skráð er á mark­að. Það hagn­að­ist um 11,3 millj­arða króna í fyrra sem er mikil aukn­ing frá þeim 4,7 millj­­arða króna hagn­aði sem félagið sýndi á árinu 2020. Efna­hagur þess styrkt­ist mikið milli ára, tekjur voru 58,3 millj­­arðar króna og eigið fé félags­­ins var 58,8 millj­­arðar króna í lok árs. Eig­in­fjár­­hlut­­fallið jókst úr 44 í 50 pró­­sent milli ára. Brim greiddi alls um átta pró­sent af hagn­aði sínum í veiði­gjöld, eða rúm­lega 900 millj­ónir króna.

Meira í arð en opin­ber gjöld

Sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tæki lands­ins greiddu sér 21,5 millj­­arða króna í arð á árinu 2020. Á sama tíma greiddu félögin 17,4 millj­­arða króna í bein opin­ber gjöld. Inni í þeirri tölu eru veið­i­­­gjöld (4,8 millj­­arðar króna), tekju­skattur (7,3 millj­­arðar króna) og áætlað trygg­inga­gjald (5,3 millj­­arðar króna). 

Þetta er í eina skiptið á tíma­bil­inu 2016 til 2020 sem sjá­v­­­ar­út­­­veg­­ur­inn greiddi minna í opin­ber gjöld en hann tók út í arð­greiðsl­­ur. Raunar hefur geir­inn ein­ungis einu sinni greitt jafn lítið í bein opin­ber gjöld innan árs á því tíma­bili og hann gerði 2020, en það var árið 2017 þegar heild­­ar­greiðslur hans í opin­ber gjöld voru 15,8 millj­­arðar króna. 

Sjá­v­­­ar­út­­­veg­­ur­inn hefur að sama skapi aldrei greitt sér jafn háa upp­­hæð út í arð og hann gerði á árinu 2020, vegna frammi­stöðu árs­ins 2019. Inni í þeirri tölu, 21,5 millj­­arðar króna, eru um tíu millj­­arða króna arð­greiðslur dótt­­ur­­fé­laga Sam­herja til móð­­ur­­fé­lags­ins en það greiddi sjálft ekki út arð. 

Heild­­ararð­greiðslur út úr sjá­v­­­ar­út­­­vegi frá byrjun árs 2016 og út árið 2020 námu 70,5 millj­­örðum króna. Á sama tíma greiddi geir­inn 35,9 millj­­arða króna í veið­i­­­gjöld, eða rétt rúm­­lega 50 pró­­sent af þeirri upp­­hæð sem eig­endur sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækja fengu í arð. 

Sam­þjöppun auk­ist hratt

Mikil sam­­­­þjöppun hefur átt sér stað í sjá­v­­­­­ar­út­­­­­­­vegi á Íslandi á und­an­­­­förnum ára­tug­um, eftir að fram­­­­sal kvóta var gefið frjálst og sér­­­­stak­­­­lega eftir að heim­ilt var að veð­­­­setja afla­heim­ildir fyrir banka­lán­um, þótt útgerð­­­­ar­­­­fyr­ir­tækin eigi þær ekki í raun heldur þjóð­in. Slík heim­ild var veitt árið 1997. 

Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir lands­ins með sam­an­lagt á 53 pró­­sent af úthlut­uðum kvóta, en Kjarn­inn greindi frá því í nóv­em­ber að það hlut­­fall væri þá komið upp í rúm­­lega 67 pró­­sent. 

Sam­an­lagt halda fjórar blokkir: Þær sem kenndar eru við Sam­herja, Brim, Kaup­­fé­lag Skag­­firð­inga og Ísfé­lagið á rúm­­lega 60 pró­­sent af öllum úthlut­uðum kvóta á Íslandi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar