Auglýsing

Á árinu 2020 greiddu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins, þ.e. þau sem stunda útgerð, alls 17,4 millj­arða króna í opin­ber gjöld. Þar er um að ræða tekju­skatt, trygg­inga­gjald og hið sér­tæka veiði­gjald, sem sam­tals nam 4,8 millj­örðum króna. Þau hafa ein­ungis einu sinni greitt lægri upp­hæð innan árs í sam­eig­in­lega sjóði frá árinu 2011. Mest greiddu þau árið 2013 þegar bein opin­ber gjöld geirans voru 24,5 millj­arðar króna, eða 41 pró­sent hærri en þau voru í fyrra.

Á síð­asta ári greiddu eig­endur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja sér út arð upp á 21,5 millj­arða króna. Það var hæsta arð­greiðsla sem atvinnu­greinin hefur greitt til eig­enda sinna á einu ári. 

Geir­inn borg­aði því eig­endum sínum meira í arð en hann greiddi sam­tals til sam­neysl­unnar á síð­asta ári, á sama tíma og rík­is­sjóður var rek­inn með mörg hund­ruð millj­arða króna tapi. Þetta er í eina skiptið eftir banka­hrun sem umfang greiddra opin­berra gjalda er minna en arð­greiðsla sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja til eig­enda sinna innan árs.

Sam­tals hagn­að­ist sjáv­ar­út­veg­ur­inn um 468 millj­arða króna frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2020. Frá árinu 2009 hafa sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki greitt 126,3 millj­arðar króna í arð til eig­enda sinna. Auk þess sátu eftir 325 millj­arðar króna í eigið fé í útgerð­ar­fyr­ir­tækj­unum um síð­ustu ára­mót. Það jókst um 28 millj­arða króna í fyrra þrátt fyrir metarð­greiðsl­ur. Hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í heild vænk­að­ist því um næstum 50 millj­arða króna á síð­asta ári.

Halda verður til haga að eigið fé geirans er stór­lega van­metið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eign­færa, er bók­fært á miklu lægra verði en feng­ist fyrir hann á mark­aði.

Frá 2009 hefur sjáv­ar­út­veg­ur­inn greitt alls 196,7 millj­arða króna í opin­ber gjöld, þar af 78 millj­arða króna í veiði­gjöld. Sú tala dregst frá áður en hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja er reikn­að­ur.

Yfir 70 pró­sent situr eftir hjá þeim sem halda á kvót­anum

Því var hagn­aður geirans fyrir skatta og gjöld alls um 665 millj­arðar króna á umræddu tíma­bili. Af þeirri upp­hæð fór undir 30 pró­sent til íslenskra rík­is­ins, eig­anda auð­lind­ar­inn­ar, í formi tekju­skatts, trygg­inga­gjalds og veiði­gjalda. En rúm­lega 70 pró­sent situr eftir hjá eig­endum fyr­ir­tækj­anna sem fá að nýta auð­lind­ina í formi eigin fjár og arð­greiðslna sem greiddar hafa verið út úr fyr­ir­tækj­un­um. 

Þetta eru ekki get­gátur eða álykt­an­ir, heldur það sem fram kemur í árlegum sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunni Deloitte sem kynntur er á Sjáv­ar­út­vegs­deg­inum og fyr­ir­tækið heldur í sam­starfi við tvö öfl­ug­ustu og fyr­ir­ferða­mestu lobbí­ista­sam­tök lands­ins: Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og Sam­tök atvinnu­lífs­ins.

Auglýsing
Þá á eftir að draga frá þann kostnað sem hið opin­bera á Íslandi leggur út vegna þjón­ustu við sjáv­ar­út­veg­inn, t.d. vegna hafna, haf­rann­sókna, eft­ir­lits, land­helg­is­gæslu og til­fallandi kostn­aðar vegna fisk­veiði­stjórn­un­ar. Heild­ar­út­gjöld rík­is­sjóðs vegna eft­ir­lits og rann­sókna vegna fisk­veiða og -vinnslu er áætlað um sjö millj­arðar króna í ár. Veiði­gjöldin hrökkva vart fyrir þeim kostn­aði.

Óhætt er að full­yrða að hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja verði enn meiri í ár en í fyrra í ljósi þess að Krist­ján Þór Júl­í­us­son, sem enn er sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra þrátt fyrir að hafa ekki verið í fram­boði til þings í lok síð­asta mán­að­ar, und­ir­rit­aði reglu­gerð fyrr í þessum mán­uði sem heim­ilar íslenskum skipum stór­auknar veiðar á loðnu. Raunar verður kom­andi ver­tíð sú stærsta í tæp 20 ár og afla­verð­mætið er áætlað um og yfir 50 millj­arða króna. Stór­út­gerðir taka þorra þeirra verð­mæta til sín.

Skýrslan sem svar­aði engu

Þessa stöðu sem er uppi hafa sumir eig­endur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja meðal ann­ars notað til að kaupa sig inn í óskylda geira og herða tök sín á íslensku sam­fé­lagi. Reynt hefur verið að kalla eftir upp­lýs­ingum frá hinu opin­bera um hversu víð­tækt það eign­ar­hald sé. 

Það var til að mynda gert með beiðni um skýrslu á Alþingi í lok síð­asta árs. Átta mán­uði tók að gera skýrsl­una, sem sýndi þó hvorki kross­eign­ar­tengsl eða ítök útgerð­ar­fyr­ir­tækja í ein­stökum óskyldum fyr­ir­tækj­u­m. 

Þess í stað var Skatt­­ur­inn feng­inn til að setja upp yfir­­lit yfir bók­­fært virði þeirra eigna sem útgerð­­ar­­fé­lög­in, eig­endur og tengdir aðilar áttu í öðrum félögum en útgerð­u­m. 

Þær upp­­lýs­ingar sem Skatt­­ur­inn tók saman á bók­­færðu virði eigna byggja á upp­­runa­­legu kostn­að­­ar­verði sem greitt var fyrir þær eign­­ir. Það þýðir á manna­­máli að verðið sem er upp­­­gefið er það sem greitt var fyrir eign­ina upp­­haf­­lega, ekki mark­aðsvirði henn­­ar. Fram­setn­ingin var svo loðin að skýrslu­höf­undar gerðu sér­stakan fyr­ir­vara við hana. Í skýrsl­unni segir á einum stað að það verði að hafa „fyr­ir­vara um álykt­­anir sem kunna að verða dregnar af þeim tölu­­legu gögn­um, um bók­­fært virði fjár­­­fest­ing­­ar, sem skýrslan byggir á.“

Til við­bótar var því haldið fram í skýrsl­unni að per­­són­u­vernd­­ar­lög höml­uðu því að hægt væri að birta upp­­lýs­ingar um raun­veru­­lega eig­endur félaga í skýrsl­unni. Vegna þess­­arar túlk­unar skýrslu­höf­unda var ekk­ert yfir­­lit að finna yfir þau fyr­ir­tæki sem útgerð­­ar­­menn og aðilar tengdir þeim hafa keypt í óskyldum geir­­um. 

Per­sónu­vernd hefur síðar gert alvar­legar athuga­semdir við þá skýr­ingu og sagt að hún sé ein­fald­lega röng. Því var ráðu­neytið að leyna upp­lýs­ingum sem beðið var um, og rang­lega að beita fyrir sig per­sónu­vernd­ar­sjón­ar­miðum í þeirri veg­ferð.

RÚV greindi svo frá því í sept­em­ber, degi fyrir kosn­ing­ar, að listar yfir fjár­fest­ingar útgerð­ar­fé­laga og tengdra félaga í íslensku atvinnu­lífi hafi verið í drögum að skýrsl­unni sem Skatt­ur­inn sendi ráðu­neyt­inu í júlí. List­arnir voru hins vegar ekki í seinni drögum og ekki í end­an­legri skýrslu sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra til Alþing­is.

Eiga í hund­ruðum íslenskra fyr­ir­tækja

Þar sem stjórn­völd treystu sér ekki til að taka saman þessi gögn ákvað Stundin að gera það. Í sér­stakri úttekt sem birt var fyrir rúmir viku kom fram að 20 stærstu útgerð­ar­fyr­ir­tæki lands­ins eigi ​ eign­ar­hluti, beint og óbeint, í hund­ruðum íslenskra fyr­ir­tækja sem starfa í alls óskyldum grein­um. 

Það sem hefur gert þessum aðilum kleift að öðl­ast þessi ítök er hinar gríð­ar­lega verð­mætu afla­heim­ild­ir, einnig kall­aðar kvóti, sem þeir hafa til umráða, og er met­inn á um 1.200 millj­arða króna miða við síð­ustu gerðu við­skipti með hann. Síð­ast var bætt við þessa stöðu þegar mak­ríll var færður í kvóta á grund­velli veiði­reynslu. Þær afla­heim­ild­ir, metnar á 65 til 110 millj­arða króna, fóru að mestu end­ur­gjalds­laust til stór­út­gerða. 

Í grein­ingu Stund­ar­innar kemur fram að ein­stak­lingar fari með veru­lega stjórn yfir afla­heim­ild­um. Þar fer fremstur í flokki Guð­mundur Krist­jáns­son, kenndur við Brim, með 7,77 pró­senta hlut­deild í öllum afla­heim­ildum á Íslandi. Erf­ingjar Sam­herj­a­veld­is­ins eru svo þar næst á eftir með hlut­deild í afla­heim­ildum frá 1,5 pró­sentu­stigum til 2,4 pró­sentu­stiga hver.

Kjarn­inn hefur greint frá því að alls sé 67,4 pró­­­sent allra úthlut­aðra afla­heim­ilda í höndum 15 útgerða sem margar hverjar tengj­­­ast inn­­­­­byrð­­­is.

Tölum aðeins um Noreg

Hvernig hafa aðrar þjóðir sem byggja auð sinn á mik­il­vægri auð­linda­nýt­ingu hagað þeim mál­um? Hafa þær fært yfir­ráð yfir auð­lindum til ein­stak­linga sem fara með þær eins og per­sónu­legar eign­ir? Til að finna fyr­ir­mynd að því er nær­tæk­ast að líta til Nor­egs.

Norska ríkið þjóð­nýtir til dæmis olíu­auð­lindir sínar að mestu. Það á um 70 pró­­sent hlut í Equinor (áður Statoil) á móti norskum líf­eyr­is­­sjóðum og einka­fjár­­­fest­­um. Hagn­aður á olíu­­fram­­leiðslu er skatt­lagður með alls 78 pró­­sent skatti. Þar af er 22 pró­sent venju­legur fyr­ir­tækja­skattur og 56 pró­sent sér­stakur skatt­ur. Afrakst­­ur­inn er settur í norska olíu­­­sjóð­inn, sem norska ríkið á og stýrir í gegnum sér­­stakt sam­komu­lag við seðla­­banka Nor­egs. Sjóð­­ur­inn er í dag stærsti fjár­fest­ing­ar­sjóður heims­ins. Hann á tæpt pró­sent af öllum hluta­bréfum heims og gæti gefið hverjum ein­asta lif­andi Norð­manni 30 millj­ónir króna ef allar eignir hans yrðu seldar í dag og sjóðn­um. 

Sjóð­ur­inn fjár­festir nán­ast ekk­ert innan Nor­egs, og þegar hann gerir það er einkum um að ræða inn­viða­verk­efni, sér­stak­lega í sam­göngum og fjar­skipt­u­m. 

Annað dæmi frá Nor­egi er orku­fyr­ir­tækið Statkraft, sem fram­leiðir og dreifir orku og hefur það mark­mið að raf­orku­sala þess til Evr­ópu í gegnum fjölda sæstrengja verði jafn ábata­­söm norska hag­­kerf­inu og olíu­­fram­­leiðsla í náinni fram­­tíð. Statkraft er að öllu leyti í eigu norska rík­is­ins. Það á raunar kjöl­festu­eign­ar­hluti í mörgum kerf­is­lega mik­il­vægum fyr­ir­tækj­um. Auk áður­nefndra er þar um að ræða álf­ram­leið­and­ann Norsk Hydro (hið opin­bera á yfir 40 pró­sent hlut), fjar­skipta­fyr­ir­tækið Tel­enor (54 pró­sent) og DNB bank­ann (34 pró­sent). 

Norð­menn hafa þannig valið aðra leið en ýmis önnur auð­linda­rík lönd eins og Rúss­land, Saudí-­Ar­ab­ía, Nígería eða Venes­ú­ela þar sem fáir útvaldir hafa notið góðs af nýt­ing­unni í stað þess að afrakst­ur­inn sé not­aður til að byggja almenn upp betri lífs­kjör og sam­fé­lög. 

Kerf­is­bundið og val­kvætt óheil­brigði

Hér heima höfum við ekki farið jafn hefð­bundið spillta leið með nýt­ingu auð­linda okkar og í Rúss­landi, Saudí-­Ar­ab­íu, Nígeríu eða Venes­ú­ela en þó valið að búa hér til ofur­stétt manna sem eru rík­ari og áhrifa­meiri en nokkur ætti að vera fyrir það eitt að nýta sam­eign þjóð­ar. Kerfið sem við sitjum uppi með hefur ekki leitt af sér mikið heil­brigði. Þvert á móti.

Auglýsing
Stærsta sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins, Sam­herj­a­sam­stæð­an, er til að mynda nú í virkri lög­reglu­rann­sókn vegna gruns um að hún hafi ekki greitt skatta þar sem raun­veru­leg stjórnun hennar er, sem er á Íslandi. Til við­bótar eru átta manns tengdir Sam­herja með rétt­ar­stöðu sak­born­ings í stór­felldri rann­sókn á mútu­brotum og öðrum mögu­legum efna­hags­brotum sem er í gangi hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara. Á meðal þeirra er for­stjóri og einn aðal­eig­anda Sam­herja. Fyr­ir­tækið beitti sér mán­uðum saman hart gegn þeim fjöl­miðla­mönnum sem opin­ber­uðu meint lög­brot þess og rak meðal ann­ars sér­staka deild fólks, sem kall­aði sig „skæru­liða­deild“, sem sinnti þeim verk­um.

Það hefur auk þess, beint og óbeint, fjár­magnað fjöl­miðla sem draga taum Sam­herja með stór­tækum hætti í gegnum árin. 

Til stendur að ákæra Íslend­inga sem störf­uðu fyrir Sam­herja í Namibíu ef það tekst að koma þeim fyrir dóm í land­inu. Í ljósi þess að ekki er fram­sals­samn­ingur milli Íslands og Namibíu þarf það þó að ger­ast með þeim hætti að þeir mæti sjálf­vilj­ugir, sem verður að telj­ast ósenni­legt. Kyrr­setn­ing­ar­mál gegn félögum í eigu Sam­herja í Namibíu er rekið sjálf­stætt til hliðar við saka­mála­rann­sókn­ina.

Verð­launað fyrir að vera fram­úr­skar­andi

Þrátt fyrir að vera til rann­sóknar hér­lendis og í Namib­íu, í málum sem eiga sér ekki hlið­stæðu að umfangi, rataði Sam­herji ofar­lega á lista Credit­Info yfir fram­úr­skar­andi fyr­ir­tæki sem birtur var í síð­ustu viku. Sam­herji var auk þess í þriðja sæti yfir stór fyr­ir­mynd­ar­fyr­ir­tæki í rekstri 2021 sam­kvæmt sam­an­tekt Við­skipta­blaðs­ins og Keld­unn­ar, þar sem skil­yrðin fyrir því að rata á list­ann eru sögð „ströng“. Til að telj­ast fram­úr­skar­andi fyr­ir­tæki að mati Credit­Info þarf, til við­bótar við það að upp­fylla ein­hver skil­yrði sem fela ekki í sér að vera undir rann­sókn fyrir stór­felld efna­hags­brot, að greiða 99 þús­und krón­ur. 

Til að vera fram­úr­skar­andi að mati Við­skipta­blaðs­ins og Keld­unnar þarf að greiða þeim fyr­ir­tækjum 50 þús­und krón­ur. 

Fyrir það verð fæst leyfi til að segj­ast fram­úr­skar­andi í kynn­ing­ar­efni fyr­ir­tækja. 

Hér virð­ist fara saman að vera grun­aður um að hafa stundað stór­fellda skatta­snið­göngu gagn­vart sam­fé­lag­inu sem á auð­lind­ina sem auður fyr­ir­tæk­is­ins spratt upp úr og þykja fram­úr­skar­andi. Það að vera grun­aður um stór­fellt pen­inga­þvætti vegna þess að auð­ur­inn var falin frá þeim sem áttu rétt­mætt til­kall til hans er þá vænt­an­lega líka fram­úr­skar­andi. Og það að vera grun­aður um að múta stjórn­mála­mönnum í ríki sem Ísland veitti þró­un­ar­að­stoð til að byggja upp sjáv­ar­út­veg­inn sinn í við­leitni til að kom­ast yfir kvóta og græða enn meiri pen­ing er kemur að minnsta kosti ekki í veg fyrir það sé hægt að kaupa sér vottun upp á að vera fram­úr­skar­andi.

Hvað ræður þar för er erfitt að festa fingur á. Kannski er það hræðsla við þá ein­stak­linga sem stýra þess­ari sam­stæðu. Kannski er það sjúk­leg með­virkni. Eða kannski fylgja þessi fyr­ir­tækja þeim takti sem hið opin­bera setur þegar kemur að fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu. Og snúa sér undan þegar aug­ljósir gallar blasa við.

Ætlum við að halda þessum leik áfram?

Þessi staða sem lýst er hér að ofan er í and­stöðu við vilja þjóð­ar. Það sýna allar skoð­ana­kann­anir sem gerðar hafa ver­ið. Í aðdrag­anda síð­ustu kosn­inga sögð­ust tveir af hverjum þremur vera óánægðir með kvóta­kerfið og nán­ast sama hlut­fall að núver­andi útfærsla þess ógni lýð­ræð­inu hér­lend­is. Tæp­lega átta af hverjum tíu lýstu þeirri skoðun sinni yfir að það ætti að greiða mark­aðs­gjald fyrir afnot af fiski­miðum þjóð­ar­inn­ar.

­Samt er ekk­ert gert til að breyta málum og kon­ungs­ríkin eru nú farin að ganga milli kyn­slóða. Þjóð­ar­eign er á borði orðin að einka­eign.

Síð­asta kjör­tíma­bil fór allt í það að setja breyt­ingar á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­inu í ein­hverjar nefndir eða skýrslu­gerð sem skil­uðu á end­anum engu sem hönd er á festandi. Þess í stað var dregið úr skatt­greiðslur útgerð­ar­manna, meðal ann­ars með því að afnema stimp­il­gjald af fiski­skip­um. Það voru einu breyt­ing­arnar sem kyrr­stöðu­stjórnin bauð upp á.

Nú um stundir sitja for­menn sömu stjórn­mála­flokka og gerðu ekk­ert í þessum málum á síð­asta kjör­tíma­bili og berja saman grund­völl fyrir áfram­hald­andi sam­starfi. Fólk ætti að fylgj­ast vel með því hvað verður sagt um fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfið í þeim stjórn­ar­sátt­mála sem þau munu birta, nái þau sam­an. Ætlar rík­is­stjórnin að við­halda kerfi sem hefur þurrkað út öll mörk milli stjórn­­­mála og við­­skipta til að færa auð, völd og áhrif til fárra fyr­ir­ferð­ar­mik­illa ein­stak­l­inga í stað þess að nýta hann til að byggja upp rétt­lát­ara og sann­gjarn­ara sam­fé­lag fyrir raun­veru­lega eig­endur auð­lind­ar? 

Svarið við því fæst á næstu vik­um.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins á Kjarvalsstöðum í gær.
„Engin áform“ um að ríkið auki rekstrarframlög með tilkomu Borgarlínu
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segist ekki sjá fyrir sér að ríkið auki framlög sín til rekstrar almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins, eins og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Strætó bs. hafa kallað eftir.
Kjarninn 29. nóvember 2021
Franskur fiskveiðibátur lokar á skipaumferð um Calais í Frakklandi.
Frakkar og Bretar berjast enn um fiskinn í Ermasundi
Enn er ósætti á milli Frakklands og Bretlands vegna fiskveiða í breskri landhelgi eftir Brexit. Á föstudaginn reyndu franskir sjómenn reyndu að loka fyrir vöruflutninga á milli landanna tveggja til að krefjast úthlutunar fleiri fiskveiðileyfa.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Sunnlenskir sjálfstæðismenn kalla eftir skýringum frá Bjarna Benediktssyni.
Ósáttir sunnlenskir sjálfstæðismenn krefja Bjarna um skýringar
Sjálfstæðismenn á Suðurlandi eru með böggum hildar yfir því að Guðrún Hafsteinsdóttir oddviti flokksins í kjördæminu eigi ekki sæti við ríkisstjórnarborðið nú þegar. Tíu af tólf ráðherrum eru þingmenn kjördæma höfuðborgarsvæðisins.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Bresk myndlistarkona málaði eitt hundrað málverk af eldgosinu í Fagradalsfjalli
Eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í vor hefur vakið allskonar væringar hjá fólki. Amy Alice Riches ákvað að mála eitt málverk á dag af því í 100 daga. Hún safnar nú fyrir útgáfu bókar með verkunum.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Allt sem þú þarft að vita um nýjan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar
Stefnt er að því að lækka skatta, selja banka og láta fjármagnseigendur greiða útsvar. Auðvelda á fyrirtækjum að virkja vind og endurskoða lög um rammaáætlun.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við kynningu stjórnarsáttmálans á Kjarvalsstöðum í dag.
Talað um að lækka mögulega skatta en engu lofað
Engar almennar skattkerfisbreytingar eru útfærðar í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra segir að horft verði til þess að lækka skatta á þá tekjulægstu eða til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja ef svigrúm gefist.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Álfheiður Eymarsdóttir
Kosningaframkvæmd fjórflokksins
Kjarninn 28. nóvember 2021
Ríkisstjórnin stokkast upp í dag, eftir rúmlega tveggja mánaða viðræður þriggja flokka um áframhaldandi samstarf.
Þessi verða ráðherrar
Willum Þór Þórsson og Jón Gunnarsson verða ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kynnt er í dag. Guðrún Hafsteinsdóttir er sögð koma inn sem ráðherra dómsmála síðar á kjörtímabilinu.
Kjarninn 28. nóvember 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari