Mynd: Isavia

Úti er WOW-ævintýri

WOW air hefur háð baráttu fyrir tilveru sinni mánuðum saman. Þótt undið hafi verið ofan af umfangi flugfélagsins síðustu mánuði versnaði staðan samt sem áður dag frá degi. Í lok síðustu viku lá fyrir að afar ólíklegt væri að WOW air yrði bjargað. Og í morgun féll það formlega. Afleiðingarnar eru umtalsverðar, sérstaklega á íslenskt samfélag.

Í lok síð­ustu viku var ljóst að WOW air væri komið nán­ast fram af bjarg­brún­inni. Indigo Partners sleit loks form­lega sam­tali sínu um að koma að rekstri flug­fé­lags­ins eftir margra mán­aða dans, og Icelandair var kallað aftur að borð­inu til að reyna að finna ein­hverja leið til að halda starf­sem­inni lif­andi. Það var þungi í þeirri til­kynn­ingu sem send var til Kaup­hallar vegna þessa og skýrt tekið fram að við­ræður myndu fara fram á þeim for­sendum að WOW air væri fyr­ir­tæki á fallandi fæti. Það ger­ist ekki nema að eng­inn annar mögu­leiki sé í stöð­unni en yfir­taka sam­keppn­is­að­ila, enda heim­ila þær for­sendur til að mynda að sam­keppn­is­legum hömlum sam­runa er vikið til hlið­ar.

Þegar Kjarn­inn greindi frá því á sunnu­dag klukkan 17:19, að búið væri að slíta við­ræðum við Icelandair blasti við að dauða­stríð WOW air var komið á loka­metr­anna. Og að krafta­verk þyrfti til að bjarga félag­inu.

Bak­við tjöldin hófst vinna hjá stjórn­völdum um hvernig brugð­ist yrði við yfir­vof­andi gjald­þroti WOW air, bæði með til­liti til áhrifa á ferða­þjón­ustu á Íslandi og um það hvernig væri hægt að tryggja að allir far­þegar sem áttu miða með WOW air kæmust til sinna heima. Farið var yfir þann mögu­leika að grípa inn í með sama hætti og þýsk stjórn­völd gerðu þegar Air Berlin fór í þrot árið 2017. Þá lögðu stjórn­völd skipta­stjóra til fjár­magn svo hægt væri að við­halda rekstri þar til að hægt væri að koma rekstr­inum í ann­arra hend­ur. Fljót­lega var þó ákveðið að ýta þeirri sviðs­mynd til hlið­ar. Það þótti ein­fald­lega ekki for­svar­an­legt fyrir stjórn­völd að setja opin­bert fé inn í slíkan áhættu­rekstur sem WOW air var.

Svart varð svart­ara

Þótt WOW air hafi nokkrum sinnum verið alveg við það að falla, og oft bjargað sér fyrir horn með hætti sem nán­ast stork­aði hinu mögu­lega, þá var staðan sem við blasti í byrjun viku aug­ljós­lega svart­ari en nokkru sinni áður. Og hún varð enn verri þegar tvær af ell­efu vélum WOW air voru kyrr­settar af einum af leigu­sala fyr­ir­tæk­is­ins á mánu­dag. Þeir sem áttu hinar níu vél­arnar voru í við­bragðs­stöðu alla vik­una að gera slíkt hið sama. Og það var á end­anum ákvörðun þeirra um að láta kyrr­setja vélar WOW air í Banda­ríkj­unum og Kanada aðfara­nótt fimmtu­dags sem veitti WOW air náð­ar­högg­ið.

Kjarn­inn fékk upp­lýs­ingar um að vél­arnar væru fastar í Banda­ríkj­unum og Kanada klukkan rúm­lega tvö í nótt og að þær kæmu ekki aftur til Íslands. Sam­göngu­stofa, eft­ir­lits­að­ili WOW air, var upp­lýst um þá stöðu. Það voru stjórn­völd líka og Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra sagði við Kjarn­ann í morgun að hún hefði fengið tölvu­póst um stöð­una um mið­nætti í gær.

Það leiddi síðan til þess að for­svars­menn WOW air gengu á fund Sam­göngu­stofu klukkan rúm­lega átta í morgun og skil­uðu inn flug­rekstr­ar­leyfi fyr­ir­tæk­is­ins. Með því lauk form­lega rekstri WOW air, sem hóf starf­semi síðla árs 2011, og við­bragðs­á­ætlun stjórn­valda um að koma um þús­undum far­þegum sem voru stranda­glópar víða í Evr­ópu og Norð­ur­-Am­er­íku, til sinna heima.

Á meðan að þessi atburða­rás stóð yfir, áður en að leyf­inu var skilað inn en eftir að vélar WOW air voru kyrr­sett­ar, sendi WOW air frá sér til­kynn­ingu sem nú hefur verið fjar­lægð af vef flug­fé­lags­ins. Þar stóð að allt flug WOW air hefði verið stöðvað en að fyr­ir­tækið væri „á loka­­metr­unum að klára hluta­fjár­­aukn­ingu við nýjan eig­enda­hóp á félag­inu. Allt flug hefur verið stöðvað þangað til þeir samn­ingar verða klárað­­ir. Nán­­ari upp­­lýs­ingar verða gefnar kl. 9. Félagið þakkar far­þegum fyrir stuðn­­ing­inn og biðst vel­virð­ingar á þeim óþæg­indum sem þetta veld­­ur.“

Áður en þær upp­lýs­ingar voru gefn­ar, rétt­ara sagt klukkan rúm­lega korter yfir átta í morg­un, var birt til­kynn­ing á fjár­festa­síðu WOW air um að félagið hefði hætt starf­semi. Væri gjald­þrota.

Það var oft mikil stemmning í kringum rekstur WOW air. Hér sést Skúli Mogensen klippa á borða á Keflavíkurflugvelli þegar WOW air hóf flug til Montreal.
Mynd: Isavia

Kjarn­inn hefur upp­lýs­ingar um að það hafi sann­ar­lega verið gerð ein loka­til­raun í milli­tíð­inni og að þær við­ræður hafi staðið yfir fram á sjö­unda tím­ann í morg­un.

Þær skil­uðu ekki árangri og því fór sem fór.

Erfitt að rök­styðja aðkomu

Þótt WOW air hefði form­lega orðið gjald­þrota í morgun þá hefur flug­fé­lagið í reynd verið ógreiðslu­fært lengi. Því hefur verið haldið á floti með svig­rúmi frá kröfu­höf­um, skulda­bréfa­út­boði sem varð á end­anum eins og plástur á svöðu­sár og áfram­hald­andi lán­veit­ing­um.

Erfitt var að sjá, sér­stak­lega síð­ustu mán­uði, hvað það væri sem ætti að draga nýja fjár­festa að WOW air. Vöru­merkið sjálft, sem hefur jákvæða merk­ingu á Íslandi vegna þess að WOW air hefur tryggt íslenskum far­þegum lægri flug­far­gjöld en hefur verið valið versta flug­fé­lag í heimi af Air­Help, sem sér­hæfir sig í að aðstoða fólk við að sækja bætur frá flug­fé­lög­um.

Í byrjun vik­unn­ar, á mánu­dag, fór WOW air í raun í greiðslu­þrot þegar fyr­ir­tækið gat ekki greitt skulda­bréfa­eig­endum sínum á gjald­daga. Í kjöl­farið sam­þykktu þeir að breyta kröfum sínum í nýtt hlutafé með þeim fyr­ir­vara að það tæk­ist að ná í nýtt hlutafé sam­hliða. Í raun tóku kröfu­hafar því yfir WOW air frá þeim tíma.

Skuldir WOW air voru þó orðnar 24 millj­arðar króna sam­kvæmt frétt Morg­un­blaðs­ins sem birt var fyrr í vik­unni og ljóst að ein­ungis var hægt að breyta hluta þeirra í nýtt hluta­fé. Þá vakn­aði upp sú rétt­mæta spurn­ing: af hverju ætti fjár­festir sem hefur áhuga á að fara inn í flug­rekstur að setja nýja pen­inga inn i WOW air til þess að deila eign­ar­haldi með hluta af kröfu­höfum flug­fé­lags­ins og taka á sig margra millj­arða króna við­bót­ar­skuldir við þjón­ustu­að­ila á borð við Isa­via, líf­eyr­is­sjóði og leigu­sala flug­fé­lags­ins? Væri ekki skyn­sam­legra að byrja ein­fald­lega upp á nýtt, eiga allt flug­fé­lagið sjálfur og skulda ekk­ert?

Nú blasir við að svarið við þeirri spurn­ingu var já. Á end­anum taldi eng­inn þeirra aðila sem WOW air reyndi að fá að borð­inu að það væri þess virði að leggja fyr­ir­tæk­inu til nýtt hluta­fé. Sá sem þótti lík­leg­astur til þess,­sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, var alltaf Bill Franke, eig­andi Indigo Partners, og helsta lífs­vonin í þess­ari viku var bundin við að hann myndi koma aftur að borð­inu ef það tæk­ist að grynnka vel á skuldum WOW air.

Það reynd­ist ekki von sem hægt var að byggja á.

Skúli sagð­ist eiga fyrir launum

Þrátt fyrir þessa stöðu þá var Skúli Mog­en­sen, stofn­andi, eig­andi og for­stjóri WOW air, kok­hraustur að venju í við­töl­um. Á þriðju­dag fór hann í við­tal hjá báðum sjón­varps­frétta­stöðvum lands­ins. Á RÚV sagði hann ein­fald­lega: „Ég er alltaf brattur að eðl­is­fari[...]Ég ætla mér að klára þetta.“

Í sam­tali við frétta­stofu Stöðvar 2 sagði Skúli að staðan væri bara nokkuð góð og að sú ákvörðun skulda­bréfa­eig­enda að breyta kröfum í hlutafé væri að styrkja flug­fé­lagið all­veru­lega. Eftir til­tekt væri WOW air komið í „mjög góðan gír“.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk upplýsingar um stöðu WOW air um miðnætti í gær.
Mynd: Bára Huld Beck

Nú væri búið að vinda ofan af þeim dýr­keyptu mis­tökum sem hefðu verið gerð með leigu á breið­þot­um. „Nú erum við búin að skila þeim og hag­ræða á ný. Nú erum við aftur orðin sams­konar flug­fé­lag og við vorum árin 2015 og 2016. Það er þess vegna sem ég segi með miklu öryggi að við vitum nákvæm­lega hvað við erum að gera og hvert við erum að fara og við sjáum árang­ur­inn nú þegar vera að skila sér.“

„Ég er mjög von­góð­ur,“ sagði Skúli og þegar hann var spurður hvort að flug­fé­lagið myndi eiga fyrir launum um kom­andi mán­aða­mót var svarið ein­falt: „já“. Nú liggur fyrir að starfs­fólk WOW air þarf að sækja þau laun í ábyrgð­ar­sjóð launa, og þar af leið­andi til skatt­greið­enda.

Í sama við­tali sagði Skúli að fólki yrði óhætt að kaupa flug­miða með flug­fé­lag­inu. Í dag voru um fjögur þús­und ein­stak­lingar sem keyptu sér flug með WOW air á næstu vikum ekki með flug heim.

Umtals­verð sam­fé­lags­leg áhrif

Við­búið er að þrot WOW air mun hafa umtals­verð áhrif á íslenskt sam­fé­lag. Hátt í þús­und manns misstu vinn­una í morgun og nokkur hund­ruð í við­bót sem starfa við þá sem hafa þjón­u­stað WOW air munu einnig missa starf­ið. Áhrifin munu lík­ast til verða einna mest á Suð­ur­nesjum þar sem stór hluti þeirra sem starfar á Kefla­vík­ur­flug­velli býr.

Þá er við­búið að tekjur þjóð­ar­bús­ins munu drag­ast saman og end­ur­skoða þarf allar áætl­anir í rík­is­rekstri. Kröfu­haf­ar, inn­lendir og erlend­ir, munu tapa umtals­verðum fjár­hæð­um. Hér­lendis eru það meðal ann­ars Arion banki og rík­is­fyr­ir­tækið Isa­via. Auk þess munu þjón­ustu­fyr­ir­tæki á borð við Fest­ar, sem selja WOW air elds­neyti, finna vel fyrir áhrifum af brott­hvarfi WOW air af sjón­ar­svið­inu.

Neyt­endur hafa auk þess misst val­kost sem hefur keyrt niður verð á flug­miðum á und­an­förnum árum.

En áhrifin á íslenskt hag­kerfi til lengri tíma eru ekki talin veru­leg. Starf­semi WOW air hefur til að mynda verið dregin veru­lega saman á und­an­förnum mán­uðum á meðan að dauða­stríð flug­fé­lags­ins hefur farið fram fyrir allra aug­um. Floti fyr­ir­tæk­is­ins hefur farið úr 24 í 11, flug­leiðum hríð­fækkað og hund­ruð starfs­manna verið sagt upp störf­um.

Þetta mat, um áhrifin af þroti WOW air, fékk stað­fest­ingu í orðum for­sæt­is­ráð­herra í við­tali við Kjarn­ann í morg­un. Þar sagði Katrín að rík­is­stjórnin teldi að hag­kerfið væri „vel í stakk búið til að takast á við þessa áskor­un.“ Erlend eigna­staða þjóð­ar­bús­ins væri jákvæð, skulda­staða rík­is­sjóðs og heim­ila væri mjög góð og svig­rúm væri í rík­is­rekstr­inum til að takast á við sam­drátt, í ljósi þess að áætl­anir gera ráð fyrir mynd­ar­legum afgangi í honum sem hægt sé að ganga á.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar