Nauðungarsölum hefur fækkað úr 1008 árið 2013 í 69 árið 2018. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni, þingmann Miðflokksins, um nauðungarsölur, fjárnám og gjaldþrotaskipti.
Mikil aukning í nauðungarsölum átti sér stað frá árinu 2012 til 2013. Árið 2012 voru nauðungarsölur alls níu talsins miðað við 1008 nauðungarsölur árið 2013.
Árin 2014 til 2016 sveiflaðist fjöldi nauðungarsalna þónokkuð og stóð í 449 talsins árið 2014, 590 árið 2015 og 438 árið eftir. Fjöldinn lækkaði töluvert árið 2017, þ.e. niður í 168 nauðungarsölur. Það sem af er ári 2019 hafa 14 nauðungarsölur átt sér stað.
Í svarinu er varðar fjárnám kemur fram að 8153 fjárnám hjá einstaklingum voru framkvæmd af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 samanborið við 10163 árið 2013.
Í svarinu kemur einnig fram að bú 312 einstaklinga hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta árið 2018.