Hæstaréttardómarinn Árni Kolbeinsson var ekki óhlutdrægur í Al-Thani málinu svokallaða samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstóll Evrópu sem birtur var í dag.
Í Al Thani-málinu voru þrír af æðstu stjórnendum Kaupþings, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson ákærðir ásamt Ólafi Ólafssyni, einum stærsta eiganda bankans fyrir hrun, fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og hlutdeild í umboðssvikum.
Málinu lauk með dómi Hæstaréttar þann 12. febrúar 2015 þar sem allir ákærðu voru sakfelldir. Hreiðar Már var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 5 og hálfs árs fangelsis, Sigurður var sakfelldur samkvæmt ákæru hvað varðar markaðsmisnotkun en fyrir hlutdeild í umboðssvikum og dæmdur til 4 ára fangelsis. Ólafur var sakfelldur vegna markaðsmisnotkunar en sýknaður í ákæruliðum varðandi umboðssvik og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis og Magnús var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis.
Málið var á meðal umfangsmestu sakamála sem rekin hafa verið á Íslandi og dómarnir þeir þyngstu sem fallið hafa um efnahagsbrot. Sakborningar töldu að hallað hefði á þá við málsmeðferðina hér á Íslandi og hún hefði ekki verið rétt framkvæmd. Þá hefði einn dómara verið vanhæfur vegna fjölskyldutengsla.
Eftir að fjórmenningarnir voru dæmdir fóru þeir fram á að endurupptökunefnd tæki málið upp að nýju en beiðnunum var hafnað, öllum fjórum. Þeir kærðu þá meðferð málsins til Mannréttindadómstólsins, sem hefur komist að áðurnefndri niðurstöðu sem hægt er að lesa hér.