Icelandair hefur gengið frá leigu á Airbus þotu, segir í frétt Túrista.is, sérhæfs fréttavef um ferðaþjónustu og flug.
Icelandair hefur til þessa notað Boeing vélar, en alþjóðleg kyrrsetning á 737 Max vélum, í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 létu lífið, hefur leitt til margvíslegra erfiðleika fyrir Icelandair.
Þrjár vélar hafa verið kyrrsettar og hefur félagið leigt vélar í staðinn, en þurft að draga úr sætaframboði og endurskipuleggja rekstur, meðal annars með uppsögnum og kostnaðaraðhaldi. Áætlun félagsins gerði ráð fyrir 9 Max vélum í rekstri, en flotamál félagsins eru nú til endurskoðunar, af því er komið hefur fram í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra.
Samkvæmt tilkynningum félagsins til kauphallar, er reiknað með að Max vélarnar verði kyrrsettar til 15. september, í það minnsta.
Rekstur Icelandair hefur verið þungur undanfarin misseri en á síðasta ársfjórðungi ársins í fyrra og fyrsta ársfjórðungi þessa árs, tapaði félagið samtals 13,5 milljörðum króna.
Markaðsvirði félagsins er nú rúmlega 56 milljarðar króna, og nam eigið fé félagsins 425 milljónum Bandaríkjadala í lok mars, eða sem nemur um 52,7 milljörðum króna.