Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 6,1 prósent frá yfirstandandi ári og verður 9.047 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2020 sem Þjóðskrá Íslands kynnti í dag. Þetta er mun minni hækkun en varð milli áranna 2017 og 2018 þegar heildarmat fasteigna í landinu hækkaði um 12,8 prósent.
Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 6,0 prósent á milli ára og verður alls 6.594 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 6,6 prósent á meðan fjölbýli hækkar um 5,3 prósent.
Fasteignamat íbúða hækkar um 5 prósent á höfuðborgarsvæðinu en um 9,1 prósent á landsbyggðinni. Fasteignamat íbúða hækkar mest á Akranesi en þar hækkar íbúðarmatið um 21,6 prósent, um 17,7 prósent í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs (Suðurnesjabæ) og um 16,6 prósent í Vestmannaeyjum.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 6,9 prósent á landinu öllu; um 5,9 prósent á höfuðborgarsvæðinu en um 9,3 prósent á landsbyggðinni.
Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2019 en það tekur gildi 31. desember næstkomandi og gildir fyrir árið 2020. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2019.
Mest heildarhækkun á Akranesi
Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 5,3 prósent, um 9,8 prósent á Suðurnesjum, um 10,2 prósent á Vesturlandi, um 6,7 prósent á Norðurlandi vestra, 7,4 prósent á Norðurlandi eystra, 6,7 prósent á Austurlandi og um 8 prósent á Suðurlandi. Matssvæðum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fjölgað nokkuð til að matið endurspegli nákvæmar þær verðbreytingar sem orðið hafa á svæðinu með þéttingu byggðar síðustu misseri.
Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Akranesi eða um 19,1 prósent, um 14,7 prósent í Vestmannaeyjum og um 14,2 prósent í Suðurnesjabæ.
Fasteignamat sumarhúsa nær óbreytt
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2020 hækkar um 0,7 prósent á milli ára. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á aðferðafræði við útreikning á fasteignamati sumarhúsa og má þar helst nefna fjölgun matssvæða yfir allt landið auk þess sem útreikningi lóðaverðs hefur verið breytt þannig að sumarhúsalóðir undir meðalstærð lækka en lóðir yfir meðalstærð hækka. Lóðaverð sumarhúsa lækkar því að jafnaði um 23 prósent á milli ára á meðan húsmatið sjálft hækkar um 7,5 prósent.
Með fjölgun matssvæða er hægt að aðgreina betur fasteignamat ólíkra svæða og lækka viss strjálbyggð svæði sem hafa takmarkaðar samgöngur og eru langt frá annarri byggð. Hér má nefna svæði eins og hálendið, Flateyjardal, Norður-Þingeyjarsýslu, Siglunes, Skaga, Austurland, Norður- Múlasýslu, Mjóafjörð og fleiri svæði þar sem fasteignamat lækkar um meira en 30 prósent. Þau svæði sem hækka mest eiga það sameiginlegt að þar eru sumarhúsalóðir að jafnaði stórar og má þar nefna svæði eins og Galtarlæk, Eystri Rangá og Hróarslæk þar sem fasteignamat hækkar um meira en 25 prósent.