Félag í eigu Helga Magnússonar, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hefur keypt helmingshlut í Torgi ehf., útgáfufélagi Fréttablaðsins. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.
Helgi mun setjast í stjórn Torgs ehf. en 365 miðlar, félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, mun áfram eiga helmingshlut í útgáfufélaginu. Eignarhald Torgs hefur ekki verið uppfært á heimasíðu Fjölmiðlanefndar enn sem komið er en lög segja til um að það verði að gerast innan tveggja virkra daga frá því að eigendabreyting eða hlutafjáraukning á sér stað.
Hávær orðrómur hefur verið um kaup Helga í blaðinu undanfarna daga og er ráðning Davíðs Stefánssonar í ritstjórastól blaðsins í lok síðustu viku rakin til yfirvofandi aðkomu Helga að útgáfustarfseminni. Kjarninn reyndi að hafa samband við Helga símleiðis í gær til að spyrja hann um kaupin en hann svaraði ekki.
Heimildir Kjarnans herma að Helgi og fleiri aðilar tengdir honum hafi verið að skoða aðkomu að Fréttablaðinu mánuðum saman, en Kvika hefur haft umsjón með því að reyna að finna nýja eigendur að því frá síðasta ári. Ekki hefur þó náðst saman fyrr en nú.
Fréttablaðið var lengi hluti af stærsta einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum. Hún var brotin upp seint á árinu 2017 þegar ljósvakamiðlar hennar, fjarskiptastarfsemi og fréttavefurinn Vísir voru seld til Vodafone á Íslandi, sem í dag heitir Sýn. Það félag tók við hinum keyptu eignum í desember 2017. Rekstur Fréttablaðsins og nýs fréttavefs, frettabladid.is, var í kjölfarið settur í felagið Torg ehf. sem er í eigu 365 miðla.
Nýr ritstjóri ráðinn í lok síðustu viku
Davíð, sem kynntur var til leiks sem annar ritstjóra Fréttablaðsins við hlið Ólafar Skaftadóttur á föstudag, hefur aðallega starfað við ráðgjöf og almannatengsl. Eina reynsla hans af fjölmiðlarekstri hefur verið dagskrárgerð á sjónvarpsstöðinni Hringbraut síðustu mánuði þar sem hann hefur gert nokkra þætti sem kallast „Ísland og umheimurinn“. Eigandi Hringbrautar er félag í eigu Sigurðar Arngrímssonar, en hann var, ásamt Helga í hópi fjársterkra manna sem komu að stofnun stjórnmálaflokksins Viðreisnar, líkt og rakið er hér að neðan.
Helgi hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi árum saman. Hann er stór hluthafi í Marel, langverðmætasta félags íslensku kauphallarinnar, og stjórnarformaður Bláa lónsins þar sem hann er einnig hluthafi.
Fréttablaðið er fríblað sem er gefið út sex sinnum í viku og dreift í 80 þúsund eintökum. Auk blaðsins rekur Torg tímaritið Glamour og vefina frettabladid.is og markadurinn.is. Lestur Fréttablaðsins hefur dalað mikið undanfarin ár. Alls lesa 38,9 prósent landsmanna blaðið nú samkvæmt mælingum Gallup. Þegar best lét, í apríl 2010, var lesturinn 64 prósent. Í hópi 18-49 ára er samdrátturinn í lestri enn meiri, en í apríl 2010 lásu 63,8 prósent fullorðinna landsmanna undir fimmtugu blaðið. Sumarið 2014 var lesturinn kominn í 55,5 prósent hjá þeim hópi og í apríl 2019 mældist hann 30,1 prósent.
Kom að stofnun Viðreisnar og hefur lagt til fé
Þá var Helgi einn þeirra sem stóð að stofnun stjórnmálaflokksins Viðreisnar á sínum tíma en hann og félög tengd honum gáfu til að mynda samtals 2,4 milljónir króna til flokksins á árinu 2016. Viðreisn bauð fyrst fram í kosningunum sem haldnar voru þá um haustið.
Á árinu 2016 voru lög þannig að stjórnmálaflokkar máttu einungis fá 400 þúsund krónur frá hverjum og einum aðila sem gefur þeim pening. Undantekning er frá þeirri reglu ef um er að ræða stofnframlög sem greidd eru á fyrsta starfsári flokksins. Þá má gefa tvöfalt, og því má hver kennitala gefa 800 þúsund þegar þannig ber undir. Það gerði Helgi ásamt nokkrum öðrum einstaklingum.
Félög tengd Helga gáfu einnig umtalsverðar fjárhæðir. Hofgarðar og Varðberg, eignarhaldsfélög hans, gáfu 400 þúsund krónur hvort og bæði Bláa Lónið og N1, þar sem Helgi var á meðal hluthafa, gáfu 400 þúsund krónur hvort. Alls gaf Helgi því 1,6 milljónir króna beint og í gegnum eignarhaldsfélög sín og fyrirtæki þar sem hann er stór hluthafi og stjórnarmaður gáfu 800 þúsund krónur til viðbótar.
Sigurður Arngrímsson, eigandi Hringbrautar, gaf á sama tíma alls 1,2 milljónir króna til Viðreisnar í gegnum tvö félög, Saffron Holding (félag sem á 99,18 prósent hlut í Hringbraut) og Ursus Maritimus, auk þess sem hann gaf 400 þúsund krónur í eigin nafni.