Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, átti fund með You Quan, háttsettum embættismanni í miðstjórn kínverska Kommúnistaflokksins, í utanríkisráðuneytinu í gær. Ræddi þar utanríkisráðherra um mannréttindamál, tvíhliða samskipti ríkjanna, auk þess sem rætt var um málefni norðurslóða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Í fréttatilkynningunni er sérstaklega tekið fram að Guðlaugur Þór hafi tekið upp mótmælin á Torgi hins himneska friðar í Beijing árið 1989, þar sem 30 ár séu nú liðin frá voðaverkunum sem framin voru af kínverskum stjórnvöldum.
Við fyrirspurn blaðamanns um hvað nákvæmlega hafi verið tekið upp varðandi málefnið og hvort kínversk stjórnvöld hafi verið beðin um að taka ábyrgð á málefninu, fékkst eftirfarandi svar frá utanríkisráðherra:
„Á fundinum í morgun rakti ég að mannréttindi væru hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu og íslenskir ráðamenn nýttu öll tækifæri til að tala fyrir þeim, bæði í tvíhliða samstarfi og á vettvangi alþjóðastofnana. Þannig ætti Ísland sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna ásamt 46 öðrum ríkjum, Kína þar á meðal. Ég áréttaði svo að þótt stjórnvöld í Kína hefðu náð miklum árangri við að bæta lífskjör þjóðarinnar legði Ísland áherslu á að mannréttindi væru algild – ekki aðeins í efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu tilliti heldur einnig borgaralegu og stjórnmálalegu. Mér þótti sérstaklega mikilvægt að ræða þetta í dag þegar þess væri minnst að þrír áratugir væru liðnir frá voðaverkunum á Torgi hins himneska friðar.”
Í fréttatilkynningunni um fundinn eru mannréttindi sögð vera iðulega á dagskrá á fundum utanríkisráðherra með erlendum blaðamönnum.