Fylgi Sjálfstæðisflokksins stendur nærri óbreytt milli mælinga í fyrri og seinnihluta maímánaðar og mælist nú 21,5 prósent. Fylgi Viðreisnar, 8,3 prósent, og Sósíalistaflokks Íslands, 3,4 prósent, stendur sömuleiðis óbreytt milli mælinga maímánaðar. Þetta kemur fram í nýrri MMR könnun sem birtist í dag.
Fylgi annarra flokka sveiflast meira, samkvæmt könnuninni. Vinstri græn mældust þannig með 14,1 prósent fylgi undir lok mánaðarins, sem er tæp 2 prósentustiga aukning því í fyrri hluta mánaðarins. Þá bættu Píratar við sig rúmlega fjórum prósentustigum yfir mánuðinn og mælist nú með 14 prósent fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar dalaði um tæpt eitt og hálft prósentustig frá því í fyrri hluta maí og er nú með 12,5 prósent fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst í mánuðinum sem mælist nú 45,5 prósent samanborið við 40,9 prósent í fyrri hluta maímánaðar.
Fylgi Miðflokksins mælist nú 10,8 prósent en mældist 11,8 prósent í síðustu könnnun og fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 9,7 prósent og mældist 11,6 prósent. Fylgi Flokks fólksins mælist 4,2 prósent og mældist 6,4 prósent í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mælist 1,6 prósent samanlagt.
Einstaklingar 18 ára og eldri voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR en þeir eru valdir úr Þjóðskrá. 932 einstaklingar svöruðu könnuninni, 18 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd dagana 23. til 29. maí 2019.