Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir breytingartillögur ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætlun sinni til 2022 harðlega, í færslu á Facebook síðu sinni. Hann segir að tillögurnar hafi verið ræddar á fundi fjárlaganefndar.
Hann segist hafa óskað eftir frekari skýringum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þar sem hann eigi „erfitt með að trúa“ ýmsu sem komi fram í tillögunum.
Á Facebook síðunni birtir hann lista yfir 12 atriði, þar sem hann segir að niðurskurðarhnífurinn höggvi í. Tillögurnar taka mið af gjörbreyttum efnahagslegum veruleika, en útlit er fyrir samdrátt á þessu ári upp á 0,4 prósent, gangi spá Seðlabanka Íslands eftir, en í fyrra var hagvöxturinn 4,6 prósent.
„1. Fjárframlög til öryrkja næstu 5 árin eiga að lækka samanlagt um tæpa 8 milljarða frá því sem hafði þegar verið kynnt þegar fjármálaáætlunin var fyrst lögð fram fyrir rúmum 2 mánuðum. Þetta hlýtur að teljast vera ansi stór pólitísk tíðindi.
2. Nýsköpun og rannsóknir fá tæpa 3 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir.
3. Umhverfismálin lækka um 1,4 milljarð kr. samanlagt næstu 5 árin frá því sem hafði verið tilkynnt í fjármálaáætluninni. Og kemur þetta verulega óvart í ljósi mikilvægi málaflokksins og orða ráðamanna um þessi mál að undanförnu.
4. Framhaldsskólar fá 1,8 milljarð kr. lægri upphæð samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun og minnka heildarframlög til þeirra örlítið næstu fimm árin þrátt fyrir loforð um að „styttingarpeningarnir“ ættu að haldast og allt tal um „menntasókn“.
5. Þá átti háskólastigið án LÍN í upprunalegri fjármálaáætlun frá því í mars sl. að fá svipaða upphæð árið 2019 og árið 2024 og er það þvert á tal ráðherrana um stórsókn hér og skýrt loforð í stjórnarsáttmála um mikla aukningu til háskólana.
6. Menning og æskulýðsmál fá 8,6% lækkun á heildarframlögum frá 2019 og til 2024.
7. Sjúkrahúsþjónusta fær um 4,7 milljarða kr. lækkun samanlagt næstu 5 árin í breytingartillögunum frá því sem hafði verið lagt fram í áætluninni. Heilbrigðismálin voru MÁLIÐ í síðustu kosningum og kemur þetta mjög á óvart.
8. Heilsugæsla og sérfræðiþjónustan fær um 2 milljarð kr. lækkun næstu 5 árin frá eldri tillögu fjármálaáætlunar.
9. Hjúkrunarheimilin fá 3,3% lækkun á fjárframlögum sínum næstu 5 árin þrátt fyrir aukna öldrun þjóðarinnar og allt tal um sókn í þeim málum.
10. Löggæslan fær 1 milljarð kr. lækkun í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og sé litið til heildarútgjalda til þessa málefnasviðs þá lækka þau um 8,6% næstu 5 árin.
11. Samgöngumál fá í breytingartillögunum 2,8 milljarð kr. lækkun samanlagt næstu fimm árin frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir. Og sé litið til heildarútgjalda til samgöngumála þá lækka þau um 17% næstu fimm árin.
12. Þróunarsamvinna lækkar (sem var nú ekki beysin fyrir) í meðförum ríkisstjórnarinnar frá því sem tilkynnt hafði verið fyrir rúmum 2 mánuðum og nemur lækkunin um 1,8 milljarð kr. samanlagt næstu fimm árin.“