Fjármálaráð telur að breytingar í hagþróun, eins og þær birtast í nýjustu spá Hagstofu Íslands, nægi ekki einar og sér sem fullgilt tilefni til endurskoðunar gildandi fjármálastefnu. Það séu hins vegar merki til staðar um að samdrátturinn í hagkerfinu gæti orðið meiri og því telur ráðið tilefni til endurskoðunar stefnunnar.
Þetta kemur fram í umsögn fjármálaráðs um þingsályktunartillögu um breytingu á fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram vegna breytinga á efnahagsástandi landsins. Umsögnin var birt síðdegis í dag.
Í þeim breytingum felst að nú er spáð samdrætti upp á 0,2 prósent í ár í stað hagvaxtar upp á 2,6 prósent líkt og spá Hagstofu Íslands sem fjármálastefnan hvílir á gerði ráð fyrir.
Gæti orðið skarpari
Fjármálaráð er ráð óháðra sérfræðinga skipað af fjármála- og efnahagsráðherra. Í því sitja Gunnar Haraldsson formaður, Ásgeir Brynjar Torfason, Þórhildur Hansdóttir Jetzek og Axel Hall varaformaður.
Í umsögn fjármálaráðs segir að það séu merki um að samdrátturinn gæti jafnvel orðið skarpari og lengri en fyrirliggjandi spá Hagstofu Íslands segir til um. „Þannig má ætla að ef stefnan væri ekki endurskoðuð nú gæti slíkt reynst nauðsynlegt í náinni framtíð.“
Slíkt gæti kallað á sársaukafullar ráðstafanir nú í opinberum fjármálum sem myndu reynast óskynsamlegar eftir á að hyggja og brjóta í bága við grunngildi. „Verði hagþróunin verri en ráð er fyrir gert gæti slíkt eitt og sér kallað á nýja endurskoðun. Að öllu ofansögðu telur fjármálaráð tilefni til endurskoðunar og að breytingar á gildandi fjármálastefnu séu í samræmi við grunngildi og skilyrði laga um endurskoðun fjármálastefnu.“
Verða að finna tugi milljarða
Endurmetnar afkomuhorfur hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, gera ráð fyrir að afkoma hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga – versni að óbreyttu um 40 til 46 milljarða króna á ári.
Höggið er mest á ríkið en ef ekkert verður að gert mun afkoma ríkissjóðs verða 35 milljónum krónum lakari í ár en fyrri afkomuhorfur gerðu ráð fyrir. Sama yrði upp á teningnum á næsta ári.
Til að bregðast við þessari stöðu hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagt fram tillögu um breytingu á fimm ára fjármálastefnu stjórnvalda. Í henni segir að nauðsynlegt verði að grípa til ráðstafana til að bæta afkomu ríkissjóðs. Að óbreyttu megi gera ráð fyrir því að umfang slikra ráðstafana geti numið um sjö milljörðum króna á næsta ári til 25 milljarða króna að þremur árum liðnum. „Þannig endurspegli afkomumarkmið endurskoðaðrar fjármálaáætlunar lægri afkomu í ljósi breyttra efnahagshorfa en jafnframt það stefnumið stjórnvalda að rekstur ríkissjóðs fari ekki í halla við núverandi aðstæður.“
WOW air og loðnubrestur
Ástæður þess að endurskoða þarf fjármálaáætlun, sem þó var einungis lögð fram í mars síðastliðnum, ætti að vera flestum augljós. Gjaldþrot WOW air í lok mars, sem er lykilbreyta í að gert sé ráð fyrir ellefu prósent fækkun ferðamanna á árinu 2019, ásamt algjörum aflabresti í loðnuveiðum sem mun leiða til 18 milljarða króna minni útflutnings en árið 2018 skipta þar mestu máli.
Þessi staða hefur leitt til þess að hagvaxtarspár hafa farið úr því að vera jákvæðar í að vera neikvæðar. Hagstofa Íslands spáir nú 0,2 prósent samdrætti á Íslandi í ár en Seðlabanki Íslands er enn svartsýnni og spáir 0,4 prósent samdrætti. Seðlabankinn hefur auk þess bent á, í fráviksgreiningum í nýjasta hefti Peningamála, að frekari áföll í ferðaþjónustu og áhrif af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, geti aukið neikvæð áhrif umtalsvert á skömmum tíma.