Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni í miðstjórnarfundi hjá Framsóknarflokknum í dag, að skilboðin til klofningsbrots úr Framsóknarflokknum - og átti þar við Miðflokkinn - vegna atburða í stjórnmálunum undanfarin misseri, væru þau að því væri ekki boðið til samstarfs í stjórnmálunum.
„Við fórum fram sem sáttaafl en ekki sundrungarafl,“ sagði Sigurður Ingi, þegar hann fjallaði um þátttöku Framsóknar í ríkisstjórnarsamstarfinu með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.
„Ég minntist áðan á að fyrir síðustu kosningar vorum við flokkur í sárum. Það reyndi á okkur, bæði sem flokk og okkur persónulega. Við fórum samt inn í kosningabaráttuna sem sameinað afl og stóðum styrkum fótum á hugsjónum Framsóknar og sögu. Við fórum fram sem sáttaafl en ekki sundrungarafl. Við erum samvinnuflokkur og framsóknarfólk er samvinnufólk. Því er ekki að leyna að hart hefur verið sótt að okkur af því klofningsbroti sem átti ekki lengur samleið með okkur. Við höfum líka séð glöggt hvers vegna þetta brot átti ekki samleið með Framsókn. Framsókn, flokkurinn okkar, sem er okkur svo afar kær er hófsamur og ábyrgur. Við berum virðingu hvert fyrir öðru og fyrir öðrum.Þess vegna vildu 74% aðspurðra sjá Framsókn í ríkisstjórn eftir síðustu kosningar. Af því fólk treystir okkur. Og traust er dýrmætasta eign stjórnmálaflokks. Þetta flokksbrot hefur lagt mikið á sig til að komast á dagskrá þessa fundar með fordæmalausu og innihaldslausu málþófi á Alþingi. Við þetta brot segi ég eins og sagt er í frægu lagi: - Þér er ekki boðið,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars.
Hann lagði áherslu á það í ræðunni, að Framsóknarflokkurinn væri flokkurinn sem gæti brúað bilið, og ýtt undir framfarir með því að sækja fram eftir miðjunni.
„Það eru mörg sóknarfæri í íslensku atvinnulífi. Hvort sem það eru okkar hefðbundnu öflugu greinar eins og sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta. Þar á grunni sjálfbærar nýtingar eru tækifæri grundvölluð á gæðum vörunnar og ímynd íslenskrar náttúru. En það eru ekki síður tækifæri í nýjum greinum sem byggja á hugviti mannsins. Menntun, þekking , nýsköpun og frumkvæði verða lykil hugtök í því umbreytingaskeiði sem framundan er vegna tækniþróunnar. Þar ætlum við að verða fremst meðal jafningja,“ sagði Sigurður Ingi.