Vatnsmýrin fær póstnúmerið 102 eftir að tillaga að rumkvæði Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra var samþykkt á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar í gær. Sá hluti póstnúmers 101 sunnan við Hringbraut fær þar af leiðandi póstnúmerið 102 en mörk póstnúmera 105 og 107 haldast óbreytt.
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar gegn einu atkvæði Mörtu Guðjónsdóttur, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Marta sagði ekkert tillit hafa verið tekið til athugasemda um að breyta póstnúmerinu 102 á Hlíðarenda en leyfa póstnúmerinu í Skerjafirði og vestan Njarðargötu að halda sér á meðan Reykjavíkurflugvöllur sé enn í Vatnsmýrinni.Hún segir ekki komist til móts við vilja íbúa heldur eingöngu sé litið til vilja uppbyggingaraðila á Hlíðarendasvæðinu.
Tveir borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þær Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir, sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Flokkur fólksins vildi nota þrjár milljónirnar sem fari í að skipta um póstnúmer í Vatnsmýrinni fari í að greiða niður gjald skólamáltíða.
Nýtt póstnúmer, 102 Reykjavík, verður að veruleika í Vatnsmýri. Staðfesting þessa efnis var lögð fyrir borgarráð í dag....
Posted by Dagur B. Eggertsson on Thursday, June 6, 2019
Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur vram að 102 Reykjavík sé eitt mesta uppbyggingarsvæðið í núverandi vaxtarskeiði borgarinnar. Innan póstnúmerisins séu bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík, háskólagarðar HR og Stúdentagarðar auk Vísindagarðasvæðisins. Nauthólsvík ásamt gömlu og nýju byggðinni í Skerjafirði eru einnig innan svæðisins.