Leggja ætti niður endurgreiðslur af hálfu ríkisins til spjall-, skemmti- og raunveruleikaþátta og takmarka ætti endurgreiðslurnar við kvikmyndir í fullri lengd, röð leikinna sjónvarpsþátta eða sjónvarpsmynda og svo heimildarmyndir. Þetta kemur fram í skýrslu vinnuhóps um styrki og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Vinnuhópurinn kynnti tillögur sínar á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Vinnuhópurinn leggur til að ef endurgreiðslur einstakra verkefna fari yfir 400 milljónir króna væri hægt að dreifa endurgreiðslunum yfir fleiri en eitt ár til þess að forðast að stór verkefni þurrki upp fjárveitingu ársins.
Þak á ársgreiðslur
Verði tillögurnar að lögum þá verður sett þak á ársgreiðslur til einstakra verkefna og öll verkefni þurfi að lúta endurskoðun á kostnaði. Þar með verði nýting fjármuna bætt og heildarupphæðir endurgreiðslna lækkaðar, að því er kemur fram í skýrslunni.
Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar er á ábyrgð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Heimila núgildandi lög 25 prósenta endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.
Allir geta fengið endurgreiðslu svo framarlega sem framleitt er efni sem ekki sé útilokað í lögunum, samkvæmt skýrslunni frá 2019. Samkvæmt niðurstöðum vinnuhópsins eru því engin takmörk á heildarskuldbindingu ríkisins sem geti samræmst illa rammafjárlagargerð ríkisins. Engu að síður sé hægt að fresta endurgreiðslum. Alls hefur ríkið hefur styrkt kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi um 2,3 milljarð á ári síðustu ár eða um 0,09 prósent af vergri landsframleiðslu.
Þar kemur einnig fram að skatttekjur af kvikmyndaframleiðslu séu alla jafna hærri en sem nemur endurgreiðslum vegna kostnaðar ef litið sé til beinna áhrifa af endurgreiðslum. Einnig séu beinar skatttekjur af styrkjum Kvikmyndasjóðs lægri en styrkir hins opinbera.
Laun væru lægri ef styrkja nyti ekki við
Í skýrslunni frá árinu 2015 kemur fram að ef ekki væri fyrir endurgreiðslur væru laun í kvikmyndaframleiðslu lægri. Það að auki myndist fyrir hvert starf í kvikmyndagerð 1,9 störf annars staðar í hagkerfinu, að því er kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2006.
Fall gengis íslensku krónunnar á árunum 2012 til 2014 jók fjölda erlendra verkefna, að því er kemur fram í skýrslunni frá árinu 2015. Niðurstaðan sé enn fremur sú að íslenska gengið hafi meiri áhrif en hækkun endurgreiðslna á kostnað erlendra aðila.
Fast & Furious innspýting fyrir sveitarfélögin
Kvikmyndin Fast & Furious 8 sem tekin var upp árið 2016 var innspýting fyrir sveitarfélögin þar sem tökur fóru fram. Alls voru 509 milljónir króna endurgreiddar sem er jafnframt stærsta einstaka endurgreiðsluverkefnið á Íslandi. Í kjölfarið varð betri nýting á gistirýmum, veitingasölu og stórum bílaleigusamfélögum.
Samanborið við önnur nágrannalönd borgar Ísland hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu í opinberan stuðning við kvikmyndagerð. Noregur útilokar til að mynda endurgreiðslur vegna raunveruleika- og skemmtiþátta, að því er kemur fram í skýrslu vinnuhópsins.
Styrkir og veikleikar
Styrkur núverandi kerfis eru samkvæmt skýrslunni þeir að kerfið sé einfalt, gagnsætt, hvetji til uppbyggingar, stuðli að vexti í atvinnugreininni og hefði efnahagsleg margfeldisáhrif. Endurgreiðslukerfið geti stuðlað að mikilli landkynningu og auki útflutning.
Veikleikar kerfisins séu að auðvelt sé að misnota kerfið, ákvæði séu ekki nógu skýr um eftirlit með framleiðslukostnaði og að óvissa gæti verið um útgjöld ríkissjóðs hverju sinni. Kerfið geti komið í veg fyrir sjálfbærni kvikmyndaiðnaðarins og að gengi íslensku krónunnar hafi mikil áhrif, að því er fram kemur í skýrslu vinnuhópsins.