Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá því í janúar síðastliðnum um að svipta skipið Kleifaberg RE-70 um leyfi til veiða í atvinnuskyni.
Fiskistofa hafði svipt togarann, sem er gerður út af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni í tólf vikur vegna brottkasts. Sviptingin tekur gildi frá og með 4. febrúar.
Ákvörðunin var dagsett 2. janúar. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði ítarlega um brottkastið í þætti sem var sýndur í nóvember 2017. Útgerðarfélag Reykjavíkur gaf samstundis út að það ætlaði að kæra sviptinguna til atvinnu- og nýsköðunarráðuneytisins en félagið segir að leyfissviptingin sé í raun „dauðadómur“ yfir Kleifabergi.
Nú hefur ráðuneytið komist að niðurstöðu sinni og fellt ákvörðun Fiskistofu úr gildi. Í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að Fiskistofa hafi byggt ákvörðun sína á grundvelli þess sem sást á fimm innsendum myndskeiðum. „Fjögur myndskeiðanna voru frá árinu 2008 og 2010 og eitt frá árinu 2016. Í ljósi þess hve langur tími leið frá meintum brotum, 8 – 10 ár, þar til kæranda var tilkynnt um að málið væri til meðferðar hjá Fiskistofu taldi ráðuneytið að það væri í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að beita viðurlögum vegna meintra brota. Ráðuneytið felldi því ákvörðun Fiskistofu úr gildi að því leyti sem hún laut að meintum brotum frá árinu 2008 og 2010.“
Varðandi myndskeið frá árinu 2016, hafnaði ráðuneytið túlkun Fiskistofu á gildandi lögum um að það teljist vera brottkast þrátt fyrir að um sé að ræða eignarspjöll af hálfu áhafnarmeðlims. „Ráðuneytið úrskurðar að Fiskistofu hafi borið að rannsaka betur hvort um eignarspjöll hafi verið að ræða fremur en brottkast. Ráðuneytið taldi því að rannsóknaregla 10. gr. stjórnsýslulaga hefði verið brotin og vísaði þessum hluta málsins aftur til meðferðar hjá Fiskistofu.“
yrrverandi skipverji kom myndskeiðunum til Fiskistofu
Það var fyrrverandi skipverji á Kleifabergi sem afhenti myndskeið til Fiskistofu í desember 2017 sem hann sagðist hafa tekið um borð í Kleifarberg og sýndi hvernig fiski sem komið hafði um borð í skipið með veiðarfærum var kastað aftur í sjóinn. Líkt og áður sagði var um að ræða myndskeið frá árunum 2008, 2010 og 2016.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um þessi myndskeið í þætti sem sýndur var í nóvember 2017. Í úrskurði Fiskistofu frá því í janúar var vikið sérstaklega að þessum þætti Kveiks og tekið fram að á fundi með lögfræðingi Fiskistofu hafi skipverjinn fyrrverandi sagt að brottkastið um borð í Kleifarbergi hefði í öllum tilvikum verið samkvæmt fyrirmælum frá skipstjóra og stýrimanni.
Fiskistofa taldi að útgerðin hafi haft fjárhagslegan ávinning af brottkastinu
Í úrskurði Fiskistofu sagði að talið væri að útgerðin hefði haft fjárhagslegan ávinning af því að kasta fiski fyrir borð sem annars yrði til að tefja vinnslu um borð eða sem fullnægði ekki kröfum útgerðarinnar. Miklu magni af fiski hafi verið hent með vitund og samkvæmt fyrirmælum skipstjóra. Einnig mætti ganga út frá því, eins og atvikum var lýst, að um ásetningsbrot hafi verið að ræða.
„Ég hef aldrei gefið fyrirskipun um brottkast, það er engin útgerðarmaður sem gefur fyrirskipun um brottkastið,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, þáverandi útgerðarstjóri Brims, sem gerði þá út Kleifaberg, í viðtali við RÚV í nóvember 2017.
Útgerðin taldi málatilbúnað Fiskistofu ekki standast
Í yfirlýsingu frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur eftir að úrskurðurinn féll kom fram að hann yrði kærður til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Félagið taldi sig ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð hjá Fiskistofu sem hafi bæði rannsakað meint brot og fellt úrskurð. „Við erum alveg miður okkar yfir þessari ákvörðun og teljum hana ranga,“ sagði Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Útgerðarfélags Reykjavíkur. Hann sagði að ekki hefði verið tekið tillit til sjónarmiða og röksemda félagsins við rannsókn málsins.
Útgerðin taldi málatilbúnað Fiskistofu ekki standast en úrskurður hennar byggi á lýsingu eins manns og myndskeiðum sem auðvelt væri að eiga við og bjaga. Þá taldi útgerðarfélagið að þau meintu brot sem Fiskistofa telur að hafi verið framin á árunum 2008 og 2010 væru löngu fyrnd.
Enn fremur hafi eitt myndskeiðanna verið kært til lögreglu enda væri það falsað að mati sérfræðinga útgerðarinnar.
„Þetta eru gríðarlega hörð viðurlög, í raun dauðadómur yfir Kleifabergi RE-70. Kleifaberg hefur verið meðal fengsælustu fiskiskipa íslenska flotans. Afli skipsins frá árinu 2007 hefurverið tæp 100.000 tonn og aflaverðmæti yfir 30 milljarðar króna á núvirði. Lang stærsti hluti þessa frábæra árangurs má þakka yfirburða áhöfn á skipinu. Ef skipið stoppar í 3 mánuði eru allar líkur á að sjómenn á Kleifabergi fái vinnu á öðrum skipum. Með þessari ákvörðun er verið að leggja niður 52 manna vinnustað,“ sagði Runólfur Viðar í yfirlýsingu útgerðarfélagsins.