Enn virðist mikil eftirspurn vera eftir minni íbúðum hér á landi. Það sem af er ári hafa 24 prósent viðskipta með eins eða tveggja herbergja íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verið yfir ásettu verði. Aftur á móti voru 84 prósent allra íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í apríl síðastliðnum undir ásettu verði. Það er talsverð breyting frá því í apríl á síðasta ári þegar 69 prósent íbúða seldust undir ásettu verði. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Íbúðir hafa í auknum mæli selst undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu
Aðeins 10 prósent íbúða seldust á hærra verði en ásettu á höfuðborgarsvæðinu í apríl síðastliðnum ef miðað er við verð í nýjustu fasteignaauglýsingu áður en kaupsamningur var undirritaður. Til samanburðar seldust 17 prósent íbúða yfir ásettu verði í apríl í fyrra. Þá seldust um 84 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu í aprílmánuði undir ásettu verði en í fyrra seldust 69 prósent íbúða undir ásettu verði í apríl.
Þá hafa minnstu íbúðirnar, eins til tveggja herbergja, það sem af er ári verið að seljast í auknum mæli yfir ásettu verði. Alls hafa 24 prósent þeirra íbúða selst yfir ásettu verði en 71 prósent undir. Stærri íbúðir hafa aftur á móti selst í auknum mæli undir ásettu verði en það sem af er ári hafa 7 prósent íbúða með fimm herbergi eða fleiri selst yfir ásettu verði en 85 prósent undir því.
Minni íbúðir hækkað meira í verði
Meðalsölutími minnstu íbúðanna á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að styttast á höfuðborgarsvæðinu en lengjast ögn á öðrum íbúðum Á tímabilinu febrúar til apríl á þessu ári var hann 79 dagar samanborið við 92 daga í júlí til september í fyrra. Meðalsölutími annarra íbúða hefur aftur á móti farið örlítið hækkandi frá því í fyrrahaust. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalsölutími íbúða 100 dagar í apríl samanborið við 85 daga í september í fyrra.
Þá hafa verð minnstu íbúðanna, eins til tveggja herbergja hækkað mest að meðaltali undanfarin áratug Ef horft er aftur til ársins 2012 hafa eins til tveggja herbergja íbúðir ríflega tvöfaldast í verði á meðan verð stærri eigna (íbúða með fimm herbergi eða fleiri) hefur að meðaltali hækkað um 71 prósent.
Ef hins vegar er horft til síðastliðinna þriggja ára hafa stærri íbúðir hækkað ívið meira en þær minni eða um 38 prósent samanborið við 32 prósent hækkun á þriggja til fjögurra herbergja íbúðum og 36 prósent hækkun á eins til tveggja herbergja.
12 mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu farið aftur vaxandi
Árshækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist í aprílmánuði 4,7 prósent, samanborið við 4,3 prósent í mars og 3,7 prósent í febrúar, og hefur því farið ögn hækkandi síðustu mánuði. Í skýrslu Íbúðarlánasjóðs kemur fram að ef horft er til einstaka hækkana milli mánaða má þó sjá að verð hefur hækkað að meðaltali um 0,4 prósent á milli mánaða á undanförnum 12 mánuðum og er það nánast sami hækkunartaktur og síðustu 12 mánuðina þar á undan.
Hins vegar mældust mánaðarlegar hækkanir að meðaltali 1,7 prósent frá apríl 2016 til apríl 2017. Vísitala ásetts verðs, sem reiknuð er af hagdeild, hefur á undanförnum 12 mánuðum einnig hækkað að meðaltali um 0,4 prósent á milli mánaða, samanborið við 0,6 prósent meðalhækkun síðustu 12 mánuðina þar á undan og 1,6 prósent hækkun að meðaltali frá apríl 2016 til apríl 2017. Árshækkun vísitölu ásetts verðs mældist í maímánuði um 5,4 prósent,