Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um kvótasetningu á makríl þar sem minnstu útgerðunum á makríl er gert að taka á sig 45 prósent skerðingu í úthlutuðum aflaheimildum.
„Þetta er óásættanlegt og mínir félagsmenn eru afar ósáttir. Ef þetta fer svona í gegnum Alþingi þá minnkar nú tiltrú manns á stjórnvöldum,“ segir Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna.
Í þessum flokki útgerða hafa verið stundaðar veiðar með krókum allt frá árinu 2008. Í fyrra fengu skip úthlutað um 5 þúsund tonnum til veiða, en samkvæmt framlögðu frumvarpi þá fá þessar útgerðir um 2.700 tonn.
Unnsteinn segir að heimildir séu að mestu færðar til „stórútgerða landsins“, en afgangurinn fari í leigupott þar sem veiðigjald verður tvöfalt, sem sé sérstaklega þungt í reksturinn hjá félagsmönnum Félags makrílveiðimanna.
„Þessar litlu útgerðir munu því tapa heimildunum sínum og verða gert að borga leigugjald fyrir að leigja þær aftur af ríkinu. Gjaldið ásamt veiðigjöldum nemur tvöföldu veiðigjaldi annarra útgerða. Stórútgerðin segist illa eða ekki geta staðið undir helmingi þess fjárhæðar. Minnstu útgerðunum verður því gert að lifa við tvöfaldar álögur með mun dýrari og áhættusamari rekstur. Það er verið að rífa minnsta útgerðirnar á hol með þessu,“ segir Unnsteinn.
Þeir útgerðarflokkar sem fá til sín heimildirnar eru stærri útgerðir sem bæta við sig um 15 prósent af heildarkvótanum og síðan félagslegur pottur fyrir strandveiðimenn sem er tvöfaldaður að stærð frá því sem áður var. „Eðlilega eru útgerðir smábáta og skipa sem stundað hafa veiðar á makríl með línu-og handfærum (krókum) brjálaðar yfir þessum tillögum,“ segir Unnsteinn.
Hann segist enn fremur sannfærður um að efnisatriði fyrrnefnds frumvarps, eins og það sé nú, standist ekki lög og stjórnaskrá, og að félagsmenn muni láta reyna á það fyrir dómstólum. Hefur Jóhannes Bjarni Björnsson hrl. meðal annars unnið minnisblað fyrir félagið, sem Unnsteinn telur að sýni glögglega að lagalegur grunnur málsins sé ekki fyrir hendi.
Lesa má minnisblaðið hér meðfylgjandi, þar sem fjallað er um álitaefni er tengjast málinu.