Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, afsalaði sér rétti sínum til andsvars á þingi í dag, eftir að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, hafði veitt henni andsvar, í umræðum um fiskeldi.
Fjallað var um málið fyrst á vef Fréttablaðsins.
Gunnar Bragi var einn sex þingmanna Miðflokksins sem talaði með niðrandi hætti til kvenna, ekki síst samstarfskvenna á þingi, á Klaustur bar. Hann talaði meðal annars með niðrandi hætti um Albertínu. Greinilegt er að málið ristir djúpt í starfinu á þingi, og langt í frá að sár séu gróin.
Aðrir sem voru með honum voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason. Þeir tveir síðastnefndu voru reknir úr Flokki fólksins eftir að málið kom upp, en gengu til liðs við Miðflokkinn skömmu síðar, eins og kunnugt er.
Gunnar Bragi sagði í ræðu sinni að hann hefði ekki haft tök á því að kynna sér ítarlega álit minnihlutans. Hann beindi spurningum til Albertínu um hvort henni þætti það ekki áhyggjuefni að í tillögunum væri ekki gert ráð fyrir eða fjallað um hvernig fiskeldissjóður eigi að starfa.
Albertína fór til starfandi þingforseta, Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, ásamt Oddnýju Harðardóttur, og eftir stutt samtal þeirra á milli var tilkynnt um að Albertína hefði afsalað sér rétti til að veita andsvar.