Aðildarfélög BHM hafna alfarið flatri krónutöluhækkun launa þar sem slíkt samrýmist ekki kröfum félaganna um eðlilegan fjárhagslegan ávinning háskólamenntunar og getur falið í sér kjararýrnun.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá BHM, en flöt krónutöluhækkun var leiðarstefið í lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, sem samið var um í vetur.
Kjarasamningar aðildarfélaga BHM við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa nú verið lausir í meira en tvo mánuði. „Óviðunandi
hægagangur er í samningaviðræðunum að mati BHM,“ segir í yfirlýsingunni.
Aðaláherslur í kröfugerð félaganna eru að menntun sé metin til launa, að lágmarkslaun séu hækkuð og að virkur vinnutími sé styttur, segir í yfirlýsingunni.
BHM skorar á opinbera viðsemjendur aðildarfélaga bandalagsins að taka kjaraviðræðurnar föstum tökum og ganga til samninga við félögin, segir BHM.