Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur dregið umsókn sína um stöðu seðlabankastjóra til baka. Í bréfi til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, gagnrýnir hann vinnubrögð hæfisnefndar um skipan í embætti seðlabankastjóri og segir hana vanrækja að horfa til þess við mat á umsækjendum að sameina eigi Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Frá þessu er greint Fréttablaðinu í dag.
Hæfisnefndin lítur ekki til þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið
Í bréfinu segir Benedikt að meginverkefni nýs seðlabankastjóra verði að leiða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um næstu mánaðamót, auk annarra breytinga sem boðaðir eru í lagafrumvarpi um breytingar á Seðlabankanum. Hann segir hins vegar að nefndin miða ekki við þær breytingar í umsögn sinni.
„Í ljósi þess að meginverkefni nýs seðlabankastjóra verður að leiða breytingar á þessu mikilvæga sviði kom það mér í opna skjöldu þegar hæfisnefnd um stöðuna tjáði mér í upphafi viðtals að hún myndi aðeins miða sína umsögn við starfið eins og það hefur verið og ekki líta til þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið“ skrifar Benedikt í bréfinu. Hann segir jafnframt að formaður nefndarinnar hafi sagt að það gæti verið Katrín líti þó til breytinganna.
Þannig segir Benedikt að vinnubrögð nefndarinnar standist alls ekki þá kröfu til stjórnsýslu sem viðhafa þurfi. „Formaður nefndarinnar boðar í viðtali að önnur viðmið kunni að ríkja hjá þeim sem skipar í stöðuna en nefndinni sem fjallar um hæfið. Því má spyrja til hvers er nefnd sem á að vera ráðherranum til aðstoðar, ef hann notar svo allt önnur viðmið?“ spyr Benedikt í bréfinu og kallar eftir annarri skammtímalausn í því skyni að störf nefndarinnar valdi því ekki að gerð verði alvarleg stjórnsýslumistökum.
Skipun seðlabankastjóra rennur út í ágúst
Skipunartími Más Guðmundssonar seðlabankastjóra rennur út þann 20. ágúst næstkomandi. Forsætisráðuneytinu hafa borist 16 umsóknir um embætti seðlabankastjóra sem auglýst var laust til umsóknar 20. febrúar Seðlabankastjórar eru skipaðir til fimm ára í senn og einungis má skipa þann sama tvisvar sinnum.
Formaður hæfisnefndarinnar er Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands. Sigríður sat einnig í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010. Með henni í nefndinni eru Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.