Nýliðunarbrestur er augljóst í nokkrum tegundum, í íslenskri lögsögu, og hefur Hafrannsóknarstofnun, Hafró, miklar áhyggjur af því, af því er fram kom í máli Guðmundar Þórðarsonar, sviðsstjóra botnsjávarsviðs Hafró, þegar veiðiráðgjöf var kynnt í gær.
Þó Hafró leggi til 3 prósent aukningu í þorki, eða 272.411 tonn, þá staðan á ýmsum öðrum stofnum í lögsögunni áhyggjuefni. Þannig er aflamark í ýsu lækkað um 28 prósent milli ára.
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er byggð á vistkerfisnálgun innan varúðarnálgunar við stjórn fiskveiða, og er um hana fjallað ítarlega í gögnum sem fylgja ráðgjöf hvers árs.
Vistkerfisnálgun hefur verið skilgreind á margan hátt, en megin stefið er að stjórn nýtingar á að tryggja að ekki sé gengið það mikið á vistkerfið að „gæði þess raskist varanlega í nútíð og framtíð“ eins og segir í umfjöllun Hafró.
Vistkerfisnálgun á að leiða til sjálfbærrar nýtingar vistkerfisins, þ.m.t. fiskveiða. Hafrannsóknastofnun mun á komandi árum leggja aukna áherslu á þennan þátt ráðgjafar og tengja hefðbundinni einstofna ráðgjöf sem stofnunin hefur veitt um árabil.
Í umfjöllun Hafró segir að hlýnun sjávar í íslenskri lögsögu hafi leitt til breytinga á útbreiðslu margra stofna, auk þess sem „suðrænir flækingar“ hafi komið inn í lögsöguna í meira mæli en áður. „Hækkandi hitastig í neðri lögum sjávar vestan- og norðanvert á íslenska landgrunninu hefur leitt til breytinga á útbreiðslu margra botnfisktegunda. Tegundir sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum og yfirleitt haldið sig í hlýja sjónum sunnan og vestan við landið, t.d. ýsa, skötuselur, langa, keila, sandkoli og langlúra, hafa stækkað útbreiðslusvæði sitt réttsælis í vestur og norður eftir landgrunninu og á Norðurmið, og í sumum tilfellum hefur útbreiðslusvæðið flust til (Ólafur S. Ástþórsson o.fl. 2007; Jón Sólmundsson o.fl. 2010; Héðinn Valdimarsson o.fl. 2012). Áður sjaldgæfir suðrænir flækingar hafa fundist í auknum mæli á svæðinu á undanförnum árum, en stofnstærð og útbreiðsla ýmissa kaldsjávartegunda hefur minnkað í kjölfar hlýnunar,“ segir meðal annars í umfjöllun Hafró.