Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunnar og fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefur verið ráðin skrifstofustjóri Alþingis. Hún tekur við starfinu af Helga Bernódussyni. Ragna verður fyrst kvenna til að gegna starfinu.
Forsætisnefnd Alþingis auglýsti þann 20. apríl síðastliðinn embætti skrifstofustjóra Alþingis laust til umsóknar, en nefndin ræður skrifstofustjóra Alþingis til sex ára í senn. Alls bárust tólf umsóknir en nýr skrifstofustjóri Alþingis tekur við embættinu þann 1. september næstkomandi.
Á meðal umsækjenda voru Ragna, Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari og Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari.
Auk þeirra sóttu átta aðrir um stöðuna: Ásthildur Magnúsdóttir, kennari. Hildur Eva Sigurðardóttir, forstöðumaður, Hilmar Þórðarson, fv. sviðsstjóri rekstrarsviðs, Inga Guðrún Birgisdóttir, mannauðsstjóri, Ingvar Þór Sigurðsson, forstöðumaður, Kristian Guttesen, aðjunkt, Sandra Stojkovic Hinic, verkefnisstjóri, Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri, Þórdís Sævarsdóttir, kennari.
Skrifstofustjóri hefur umsjón með fjárreiðum þingsins
Skrifstofustjóri stjórnar skrifstofu Alþingis, framkvæmdum á vegum þingsins og hefur umsjón með fjárreiðum þess og eignum í umboði forseta. Því er um áhrifamikið starf að ræða.
Þingfundasvið, nefndasvið og starfsmannaskrifstofa þingsins heyra beint undir skrifstofustjóra. Skrifstofustjóri situr fundi forsætisnefndar og er forseta og nefndinni til aðstoðar í öllu er varðar stjórn þingsins. Aðsetur skrifstofustjóra er á 2. hæð Alþingishússins og á 2. hæð Skjaldbreiðar, Kirkjustræti 8. Um starf hans eru nánari ákvæði í þingsköpum Alþingis. Helgi Bernódusson hefur gegnt embætti skrifstofustjóri Alþingis frá árinu 2005 en hann lætur af störfum á næstunni.
Forsætisnefnd fól þremur úr sínum hóp að hafa umsjón með ráðningarferlinu fyrir hönd nefndarinnar. Undirnefndina skipuðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og varaforsetarnir Guðjón Brjánsson og Bryndís Haraldsdóttir.
Auk þess var skipuð þriggja manna hæfnisnefnd til að fara yfir umsóknir, meta hvaða umsækjendum yrði boðið í viðtal, annast viðtöl, meta umsagnir og gera tillögu til undirnefndar forsætisnefndar um þá sem hún telur hæfasta til að gegna starfinu. Hæfnisnefndina skipuðu Þorsteinn Magnússon, varaskrifstofustjóri Alþingis, sem er formaður, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri. Starfsmaður nefndarinnar var Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.
Var dómsmálaráðherra
Ragna Árnadóttir var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna frá 2009 til 2010. Hún kom inn í ríkisstjórnina sem ráðherra utan flokka. Ragna er með stúdentspróf frá MA, embættispróf í lögfræði HÍ 1991 ogLL.M.-gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi 2000. Hún starfaði sem lögfræðingur við nefndadeild Alþingis 1991–1995.
Í nóvember 2010 var Ragna ráðin skrifstofustjóri Landsvirkjunar og tveimur árum síðar tók hún við starfi aðstoðarforstjóra fyrirtækisins.