Samfylkingin bætir við sig tæpum tveimur prósentustigum af fylgi milli mánaða og nýtur nú stuðnings 14,4 prósent kjósenda. Vinstri græn tapa á hinn boginn tæplega þremur prósentustigum af fylgi og myndu fá 11,3 prósent atkvæða ef kosið væri í dag. Framsóknarflokkurinn tapar líka tveimur prósentustigum og mælist með 7,7 prósent fylgi.
Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins með 22,1 prósent fylgi, sem er lítið eitt meira en flokkurinn mældist með í lok síðasta mánaðar. Píratar mælast með jafn mikið fylgi og Samfylkingin, eða 14,4 prósent, og saman eru þeir tveir flokkar næst stærstir í íslenska stjórnmálaflokkalitrófinu samkvæmt könnuninni.
Miðflokkurinn haggast vart í fylgi þrátt fyrir að hafa nánast átt stjórnmálasviðið undanfarnar vikur með málþófi gegn þriðja orkupakkanum og andstöðu í málum eins og breytingum á lögum um þungunarrof, gegn tilurð ráðgjafastofu innflytjenda, hlutleysi gagnvart frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á tíðarvörur og nú síðast vegna athugasemda við frumvarp um kynrænt sjálfræði. Alls segjast 10,6 prósent að þeir styðji flokkinn nú.
Viðreisn bætir við sig fylgi á milli kannanna og mælist ný með 9,5 prósent stuðning en Flokkur fólksins yrði nokkuð frá því að ná inn manni ef kosið væri í dag með 4,2 prósent.
Sem stendur mælist Sósíalistaflokkur Íslands með meira fylgi, eða 4,4 prósent.
Alls mælist stuðningur við ríkisstjórnina 40,2 prósent og hefur ekki mælst minni síðan í nóvember 2018, þegar hann fór undir 40 prósent.