Óvissa ríkir um hvenær 737 Max vélarnar frá Boeing geta farið að fljúga á nýjan leika, en Ali Bahrami, aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunar bandarískra flugmála- og eftirlitsyfirvalda, FAA, lét hafa eftir sér á fundi í Cologne í Þýskalandi, 12. júní síðastliðinn, að það gæti gerst í desember. Á fundinum voru fulltrúar frá flugmálayfirvöldum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum, meðal annarra.
Það er töluvert síðar en vonir hafa staðið til um, þar á meðal hjá Icelandair, en áætlanir félagsins, sem tilkynntar hafa verið til kauphallar, gera ráð fyrir að 737 Max vélarnar verði kyrrsettar í það minnsta til 15. september. Þetta hefur leitt til minna sætaframboðs og endurskipulagningar á flota félagsins, en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir 9 Max vélunum í flotanum.
Fjárhagslegt tjón vegna þessa liggur ekki fyrir, en óvissa er um að hve miklu leyti það verður bætt en líklegt er að flugfélög sem gerðu ráð fyrir Max vélunum í flugáætlunum muni sækja bætur til Boeing.
Markaðsvirði Icelandair er um 57 milljarðar um þessar mundir, en eigið fé félagsins í lok fyrsta ársfjórðungs var um 53 milljarðar króna, eða 425 milljónir Bandaríkjadala.
Samkvæmt umfjöllun LA Times um fundinn, játaði Bahrami á fundinum að FAA væri undir mikilli pressu, um að ljúka sínum störfum á sem skemmstum tíma, enda mikið undir fyrir Boeing og viðskiptavini félagsins. Max vélarnar voru kyrrsettar eftir flugslys í Eþíópíu 13. mars, en skömmu áður, 29. október í Indónesíu, hafði önnur Max vél hrapað. Allir um borð í báðum vélum létust, samtals 346.
Spjótin í rannsóknum á slysunum - sem ekki er lokið enn - hafa beinst að kerfi í Max vélunum sem á að sporna gegn ofrisi, en bandaríska alríkislögreglan FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytið, eru með sjálfstæðar rannsóknir í gangi vegna slysanna. Er meðal annars verið að rannsaka hvort það hafi legið fyrir vitneskja um galla á vélunum, og hvernig brugðist hafi verið við.
Dennis Muilenberg, forstjóri Boeing, hefur að undanförnu talað með mun skýrari hætti um að Boeing hafi ekki sinnt starfi sínu nægilega vel, en hann hafði gert áður, og samskipti og upplýsingaflæði innan félagsins hafi verið tekin til endurskoðunar, vegna vandamálanna með Max vélarnar.
Hann segir að Boeing muni gera allt sem það geti gert, til að tryggja öryggi Max vélanna og ekki fljúga þeim fyrr en öll kurl eru komin til grafar, og öryggi sé tryggt.
Markaðsvirði Boeing, sem er stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna, hefur lækkað um 18 prósent frá því að Max vélarnar voru kyrrsettar alþjóðlega, í mars, en markaðsvirðið er nú tæplega 200 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 25 þúsund milljörðum króna.
Kyrrsetningin á Max vélunum hefur komið á versta tíma fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem glímir nú við töluverðan samdrátt, eftir að WOW air fór í gjaldþrot, um svipað leyti að Max vélarnar voru kyrrsettar.
Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir að fjöldi ferðamanna verði um 10,5 prósent lægri á þessu ári en hann var í fyrra, en þá komu um 2,3 milljónir ferðamanna til landsins. Spá Isavia gerir hins vegar ráð fyrir um meiri samdrætti, eða 17 prósent.