Eyrún Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Kjarnans. Hún hefur þegar hafið störf.
Eyrún hefur síðastliðin tæp sjö ár haft umsjón með og ritstýrt Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en starfaði þar áður sem ráðgjafi árum saman þar sem hún kom að ýmis konar verkefnastjórnun, markaðs- og útgáfumálum og stefnumótunarvinnu. Hún starfaði einnig á RÚV á árunum 2004 til 2006 og var meðal annars einn þáttastjórnenda Kastljóss á því tímabili. Eyrún er með BA gráðu í hagfræði með sagnfræði sem aukagrein. Þá hefur hún lokið meistaranámi í stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Eyrún tekur við starfi framkvæmdastjóra af Þórði Snæ Júlíussyni sem gegnt hefur því samhliða ritstjórastarfi frá byrjun árs 2018. Hann mun nú einbeita sér alfarið af ritstjórn Kjarnans.
Þórður Snær segir það mikinn feng að fá Eyrúnu til starfa. „Rekstur Kjarnans hefur gengið vel undanfarin ár og er í góðu jafnvægi. Stefna okkar sem að honum standa er að halda áfram að vaxa, styrkja stöðu Kjarnans í íslensku fjölmiðlaumhverfi og auka við þá umfangsmiklu fréttaþjónustu sem við veitum lesendum okkar nú þegar. Eyrún hefur mikla reynslu af fjölmiðlastarfsemi auk þess sem hún býr yfir menntun, þekkingu og hæfileikum til að leiða þann vöxt.“
Kjarninn rekur fréttavef, gefur út daglegan morgunpóst, stendur að opna umræðuvettvangnum Leslistanum og heldur úti hlaðvarpsþjónustu. Þá gefur Kjarninn út Vísbendingu, vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun, og ensk fréttabréf.
Kjarninn er einnig í samstarfi við önnur fjölmiðlafyrirtæki um framleiðslu á fréttatengdu efni. Helstu samstarfsaðilar eru sjónvarpsstöðin Hringbraut og Birtingur, vegna útgáfu á vikulega fríblaðinu Mannlífi.
Ritstjórnarstefna Kjarnans er að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllunum sínum. Að upplýsa almenning í stað þess að einblína á að skapa vefumferð. Þar er lögð áhersla á umfjöllun um alþjóðamál, innlenda þjóðmálaumræðu, viðskipti, efnahagsmál, stjórnmál og loftlags- og umhverfismál. Lykillinn að því að gera þetta kleift er Kjarnasamfélagið, þar sem einstaklingar styrkja Kjarnann með mánaðarlegu framlagi. Hægt er að gerast styrktaraðili hér.