Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 624,1 stig í maí 2019 og hækkar um 0,3 prósent á milli mánaða. Undanfarið ár hefur vísitalan hækkað um 3,8 prósent og undanfarna sex mánuði hefur hún hækkað um 0,7 prósent, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá.
Verðbólga mælist nú 3,6 prósent, og því er raunhækkun húsnæðis, þ.e. hækkun verðs með tilliti til verðbólgu, lítil sem engin þessi misserin. Þetta er mikil breyting frá því sem var uppi á teningnum fyrir tveimur árum, en þá mældist fasteignaverðshækkun á höfuðborgarsvæðinu 23,5 prósent á ári, sem þá var með mestu verðhækkunum húsnæðis í veröldinni.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis.
Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði, að því er segir á vef Þjóðskrár.
Eftir mikið hagvaxtarskeið á Íslandi, á árunum 2011 til og með 2018, eru nú blikur á lofti í efnahagsmálum. Hagvöxtur í fyrra mældist 4,6 prósent, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands, en spár Seðlabanka Íslands og Hagstofunnar gera ráð fyrir samdrætti á þessu ári upp á 0,2 til 0,4 prósent.