Arion banki hefur eignast allt hlutafé í TravelCo hf. og hyggst finna félaginu nýja framtíðareigendur svo fljótt sem auðið er.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
TravelCo hf var stofnað í kjölfar falls Primera Air og rekur ferðaskrifstofur á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.
„Aðeins er um að ræða breytingu á eignarhaldi en dagleg starfsemi og þjónusta ferðaskrifstofanna helst óbreytt. Markmið Arion banka er að tryggja áframhaldandi starfsemi ferðaskrifstofanna og hagsmuni bankans,“ segir í tilkynningu Arion banka.
Starfsemi TravelCo á Íslandi hefur farið fram undir merkjum ferðaskrifstofanna Heimsferða og Terra Nova og gengur starfsemi þeirra vel, samkvæmt því sem segir í tilkynningu Arion banka.
Stofnandi TravelCo var Andri M. Ingólfsson, en eins og kunnugt er féll ferðaþjónustuveldi hans, kennt við Primera, og hefur síðan verið unnið að því að tryggja starfsemi þessa hluta rekstrarins sem talinn er eiga sér framtíðarmöguleika.
Í tilkynningu þakkar Andri starfsfólki fyrir að hafa byggt félagið upp í samstarfi við hann. „Mér er efst í huga þakklæti til alls þess frábæra starfsfólks sem ég hef starfað með og hefur tekið þátt í uppbyggingu félagsins á undanförnum árum. TravelCo
er eitt öflugasta fyrirtæki Norðurlanda á sviði ferðaþjónustu og ég óska félaginu og starfsfólki þess alls hins besta í framtíðinni sem ég veit að verður björt,“ segir Andri.