Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir að frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem samþykkt var á Alþingi í gær vera „óttaleg hrákasmíð“. Hann segir frumvarpið ekki verja meginhagsmuni þjóðarinnar hvað varðar stjórnun, ráðstöfun og nýtingu auðlindarinnar. Hann gagnrýnir jafnframt dóm Hæstaréttar sem kveðinn var upp í desember í fyrra þar sem ríkið var gert skaðabótaskylt vegna úthlutunar makrílkvóta. Þetta kemur fram í samtali hans við Fréttablaðið í dag.
Úthlutunin sem byggði á reglugerðum Jóns ekki í samræmi við lög
Í desember síðastliðnum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ríkið væri skaðabótaskylt vegna fjártjóns sem útgerðarfélög hefðu orðið fyrir vegna reglugerðar um skiptingu makrílkvóta á árinu 2011 til 2014, sem reyndist ólögmæt. Úthlutunin var byggð á reglugerðum Jóns Bjarnasonar þáverandi sjávarútvegsráðherra. Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart útgerðunum Hugin og Ísfélagi Vestmannaeyja en engar bætur voru þó dæmdar til útgerðarfyrirtækjanna heldur einungis viðurkennd bótaskylda.
Um miðjan júní rann út frestur útgerða til að birta stefnu vegna ársins 2015 því fyrningarreglan nemur fjórum árum. Ríkislögmanni hefur borist stefnur frá útgerðarfélögum síðustu vikur en ekki hefur verið tekið saman hvað margar þær séu. Fréttastofa RÚV greindi frá því í gær að mál Ísfélagsins og Hugins gegn ríkinu verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn í næstu viku og varðar það skaðabótakröfur vegna áranna 2011 til 18. Í tilfelli Ísfélagsins nema kröfurnar tæpum fjórum milljörðum króna Vinnslustöðin í Eyjum og Eskja á Eskifirði hafa líka birt stefnur.
Dregur hlutleysi Hæstaréttar í efa
Jón segir í samtali við Fréttablaðið í dag að Hæstiréttur hafi horft fram hjá meginmarkmiðum fiskveiðistjórnunarlaga um að það beri að stýra veiðum út frá þjóðarhagsmunum en ekki hagsmunum einstakra fyrirtækja. Auk þess segir hann að útgerðirnar ættu frekar að þakka honum fyrir að hafa komið skikkan á veiðarnir og varið rétt Íslands til makrílveiða í stað þess að höfða mál til að fá bætur frá ríkinu.
Enn fremur dregur Jón í efa að Hæstiréttur hafi verið hlutlaus þegar dómur var kveðinn upp í fyrra. Hann bendir á að einn af hæstaréttardómurum í málinu, Árni Kolbeinsson, hafi verið ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu árin 1985 til 1998. Auk þess var sonur hans framkvæmdastjóri í LÍU og haft ríka aðkomu að körfugerðum á hendur ríkinu í tengslum við makrílhagsmuni.
„Þessi mál eru afar pólitísk og umdeild og voru það frá byrjun að þessi lög eins og lögin um kvótalögin voru. Mér finnst skrítið að hæstaréttardómari, sem hefur áður átt beina hlutdeild að máli með samningu og setningu mjög umdeildra laga á sínum tíma, skuli líka kallaður til sérstaklega til að dæma í Hæstarétti um svo umdeilt mál. Hann hafði áður komið að virkum hætti sem ráðuneytisstjóri þess tíma,“ segir Jón.
Óttaleg hraksmíð
Jón segir jafnframt að frumvarp Kristjáns Þórs sem samþykkt var á Alþingi í gær verji ekki hagsmuni þjóðarinnar. „Sú lagabreyting er óttaleg hrákasmíð þar sem verið er að fara á svig við meginhagsmuni þjóðarinnar hvað varðar stjórnun, ráðstöfun og nýtingu auðlindarinnar,“ segir Jón.
Frumvarpið hefur einnig verið gagnrýnt að formanni Félags makrílveiðimanna, Unnsteini Þráinssyni. Hann sagði í samtali við Kjarnann í síðustu viku að frumvarpið væri óásættannlegt og að hans félagsmenn væru afar ósáttir. Hann sagði að með frumvarpinu væru heimildirnar að mestu færðar til „stórútgerða landsins“, en afgangurinn fari í leigupott þar sem veiðigjald verður tvöfalt, sem sé sérstaklega þungt í reksturinn hjá félagsmönnum Félags makrílveiðimanna.
„Þessar litlu útgerðir munu því tapa heimildunum sínum og verða gert að borga leigugjald fyrir að leigja þær aftur af ríkinu. Gjaldið ásamt veiðigjöldum nemur tvöföldu veiðigjaldi annarra útgerða. Stórútgerðin segist illa eða ekki geta staðið undir helmingi þess fjárhæðar. Minnstu útgerðunum verður því gert að lifa við tvöfaldar álögur með mun dýrari og áhættusamari rekstur. Það er verið að rífa minnsta útgerðirnar á hol með þessu,“ sagði Unnsteinn.